Tveir þriðju kvikumagns komnir aftur undir Svartsengi
Aflögunargögn sýna áframhaldandi landris í Svartsengi en hraði þess hefur dregist lítillega saman síðustu vikur. Gögnin benda til þess að tveir þriðju þess kvikumagns sem fór úr kvikuhólfinu í atburðinum 1. apríl hafi safnast aftur. Ef hraði kvikusöfnunar helst óbreyttur má gera ráð fyrir því að líkur á kvikuhlaupi eða eldgosi aukist þegar líður á haustið. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.
Áfram mælist skjálftavirkni yfir kvikuganginum og við Fagradalsfjall en virknin hefur aukist lítillega síðustu vikur.
Óbreytt hættumat fyrir Svartsengi
Hættumatið er óbreytt og gildir til 29. júlí 2025, næsta fréttauppfærsla verður einnig 29. júlí. Ef mælingar gefa tilefni til breytinga verður hættumat endurskoðað.
Hættumatskortið lýsir hættum sem eru nú þegar til staðar á svæðinu, sem og þeim sem gætu skapast við áframhaldandi virkni í Svartsengiskerfinu.