Gáma viðbygging við gömlu lögreglustöðina.
Framkvæmdir við stækkun á húsnæði lögreglunnar á Suðurnesjum hófust nýlega með uppsetningu gámaeininga við gömlu lögreglustöðina í Keflavík.
Lögreglan á Suðurnesjum hefur verið í húsnæðisvandræðum undanfarin ár en mygla kom upp í gömlu stöðinni fyrir nokkru og þurfti að loka henni. Í gámaeiningunum sem telja um 500 m2 eru skrifstofur, viðtalsherbergi, eldhús og snyrting og fleiri rými en hægt verður að nýta hluta gömlu stöðvarinnar á neðri hæðinni. Stefnt er að því að starfsemi hefjist í nýju viðbyggingunni fyrstu vikuna í ágúst nk. en upphaflega stóð stil að nýja húsnæðið yrði tilbúið í byrjun árs. Ýmislegt í ferlinu hefur tafið það.
Í Morgunblaðinu kemur fram að embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum verði auglýst „þegar þar að kemur“ að því er fram kemur í svari dómsmálaráðuneytisins við fyrirspurn blaðsins. Margrét Kristín Pálsdóttir tók við sem lögreglustjóri þegar Úlfar Lúðvíksson hætti í maí sl.
Í svari ráðuneytisins kemur fram að frumvarp um lokaða brottfararstöð verði lagt fram á Alþingi í haust og að rekstur hennar verði undir embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum. Um er að ræða brottfararstöð fyrir þá sem hafa fengið brottvísun frá landinu en nýtist einnig sem mótttökustöð fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd, á meðan umsókn þeirra um landvist er í ferli.