80 ár síðan Þórir hlóð í fyrstu brennuna í Bótinni
„Ætli ég hafi ekki verið um þriggja ára gamall þegar ég hlóð í mína fyrstu brennu í Bótinni, sem er rétt hjá þar sem ég ólst upp og bý í dag, á Járngerðarstöðum,“ segir hinn 83 ára gamli Þórir Kristinsson frá Grindavík en hann var ásamt þeim Grindvíkingum sem eru búsettir eða dvelja í bænu í sumar, að flytja timbur og annað rusl sem nýtist sem eldmatur en Grindvíkingar ætla að fíra upp í brennu í Bótinni kl. 20 í kvöld.

Þóri var ekki einn að flytja efni þegar blaðamann bar að garði, Magnús Gunnarsson, oft kenndur við Sæból, var líka að taka til hendinni.
„Þóri nær víst að slá mér við, ég get víst ekki gefið upp lægri aldur en fimm ára en þá var ég víst niðri í fjöru að kveikja í einhverju. Svona var þetta, ég veit ekki hvað yrði gert í dag ef fimm ára barn væri að leika sér að eldi í fjöru í dag. Þetta er samt ekkert, pabbi á minningar af sér tólf ára gömlum með haglabyssu að skjóta dýr svo hægt væri að fæða mannskapinn. Svona var þetta bara.

Það verður gaman að hitta Grindvíkinga og gesti í kvöld og vonandi getum við flettað grilli inn í næsta hitting, það verður auglýst rækilega,“ sagði Maggi áður en hann settist upp í fák sinn og sótti meiri eldmat.