Bæjarráð Reykjanesbæjar gagnrýnir breytingar á leið 55
Ásbrú fellur út og ferðum fækkar
Bæjarráð Reykjanesbæjar harmar fyrirhugaðar breytingar Vegagerðarinnar á leið 55 hjá Landsbyggðastrætó, sem gengur á milli höfuðborgarsvæðisins, sveitarfélaganna á Suðurnesjum og Keflavíkurflugvallar. Þetta kemur fram í bókun bæjarráðs á fundi þess sem haldinn var í Hljómahöll 27. nóvember.
Vegagerðin hefur tilkynnt að frá og með 1. janúar 2026 verði stoppistöðvum leiðar 55 innan Reykjanesbæjar fækkað úr átta í tvær. Þá mun ferðum til og frá BSÍ á virkum dögum fækka úr átta niður í fimm. Meðal þess sem breytingarnar fela í sér er að hætt verður að aka í Ásbrú, sem er hverfi með um 5.000 íbúa.
Í svari Vegagerðarinnar til Reykjanesbæjar kemur fram að markmið breytinganna sé að aðlaga leiðakerfið að breyttum þörfum notenda og undirbúa það fyrir orkuskipti. Vísað er til stefnu stjórnvalda um að almenningssamgöngur innan einstakra sveitarfélaga séu á þeirra forræði, og að akstur leiðar 55 innan Reykjanesbæjar teljist því innanbæjarakstur.
Bæjarráð segir að með þessum breytingum geti íbúar Reykjanesbæjar illa nýtt strætó til og frá höfuðborginni snemma á morgnanna og seint á kvöldin. Þá kemur fram að kostnaður Reykjanesbæjar við að bæta við morgunakstri frá kl. 06–07 yrði um 15 milljónir króna á ári. Jafnframt er bent á að tekjur Reykjanesbæjar séu 13% lægri en meðaltal sjö stærstu sveitarfélaganna.
Í bókun bæjarráðs er ákvörðun Vegagerðarinnar sögð fela í sér skort á mikilvægri þjónustu fyrir fjórða stærsta sveitarfélag landsins. Vísað er til þess að framlög til almenningssamgangna hafi hækkað um 2,3 milljarða króna milli áranna 2024 og 2025, og að helstu breytingarnar hafi snúið að aukinni þjónustu í sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins, með styttri ferðatíma og lengri þjónustutíma.
„Áherslur á landsbyggðina og samfélögin þar mæta hér afgangi og við í Reykjanesbæ hörmum þessa ákvörðun Vegagerðarinnar,“ segir í bókun bæjarráðs.
Að lokum felur bæjarráð Kjartani Má Kjartanssyni bæjarstjóra að vinna málið áfram gagnvart viðeigandi stjórnvöldum.
Leið 55 KEF – Airport – Reykjavík
- Breytt akstursleið innan Reykjanesbæjar
- Samræmd tímaáætlun leiðar 55 við innanbæjarvagna Reykjanesbæjar í Miðstöð
- Hættir akstri inn að Ásbrú og stoppar nú aðeins í Miðstöð og við Tjarnarhverfi
- Ferðir til og frá BSÍ á virkum dögum verða alls fimm á dag og á öðrum tímum aka vagnar til og frá Firði Hafnarfirði
- Tekur við reiðhjólum á fyrirfram ákveðnum ferðum í tímatöflu
Leið 87 Vogar – Miðstöð Reykjanesbær
- Færri ferðir til Reykjanesbæjar
- Í ferðum til Reykjanesbæjar verður ávallt stoppað við FS á stoppistöðinni Holtaskóli sem fær nafnið Holtaskóli – FS og Miðstöð
- Tengist leið 55 við Vogaafleggjara til að tengjast höfuðborgarsvæðinu í morgun- og síðdegisferðum
Leið 89 Garður – Sandgerði – Miðstöð Reykjanesbær
- Akstursleið snúið við; verður Garður-Sandgerði-KEF-Airport-Reykjanesbær
- Ekur í völdum ferðum upp að Keflavíkurflugvelli. Fyrsta ferð frá Garði verður kl. 5:12 og verður vagninn kl.5:30 við Keflavíkurflugvöll
- Ferðum á virkum dögum fækkað úr ellefu í átta ferðir á dag
- Breytt akstursleið í Suðurnesjabæ – Stoppað á Garðvangi og Póshúsinu í Garði, stoppað hjá Vörðunni og Íþróttamiðstöðinni í Sandgerði
- Í ferðum til Reykjanesbæjar verður ávallt stoppað við FS á stoppistöðinni Holtaskóli sem fær nafnið Holtaskóli – FS og Miðstöð





