Dubliner
Dubliner

Fréttir

Fyrsti togarinn í Garði breytti öllu
Áhöfn Erlings GK árið 1976.
Fimmtudagur 27. nóvember 2025 kl. 07:41

Fyrsti togarinn í Garði breytti öllu

Um þessar mundir eru liðin fimmtíu ár frá því fyrsti togarinn kom til Garðs og Sandgerðis. Togarinn var Erlingur GK 6, norsk nýsmíði frá Sterkoder Mek. Verksted A/S í Kristiansund. Útgerð skipsins var í höndum Fjarðar hf. þar sem Guðbergur Ingólfsson og synir í Garði áttu 80% hlut og Jón Erlingsson í Sandgerði 20%.

Erlingur kom nýr til landsins á Þorláksmessu 1975. Sveinn Jónsson var skipstjóri og Sigurður Guðmundsson 1. vélstjóri. Þórarinn Guðbergsson var framkvæmdastjóri útgerðar og er hálfri öld síðar enn að fást við skip, nú sem skipasali.

Nýsprautun vetrardekk
Nýsprautun vetrardekk

Þórarinn segir að tilkoma fyrsta togarans í Garði hafi valdið stakkaskiptum og gjörbreytt aðfangaöryggi, atvinnu og skipulagi vinnslu í heimabyggð.

Þórarinn Guðbergsson var útgerðarstjóri Erlings GK 6 þegar hann kom til landsins í desember fyrir 50 árum. Hér er hann í fyrirtæki sínu Alasund Shipbrokers ehf. í Reykjanesbæ. VF/hilmarbragi

Nýsmíðin og afhendingin

Feðgarnir hófu að skoða nýsmíði árið 1974. Eftir um árs undirbúning var samið í maí 1975 um smíði 42 metra skuttogara. „Við tökum svo við skipinu í Noregi 13. desember 1975,“ rifjar Þórarinn upp.

Glöggir sjá að það liðu einungis um átta mánuðir frá undirritun samnings til afhendingar. Skipasmíðastöðin var afar öflug; árið 1975 smíðaði hún sjö skuttogara og tvö flutningaskip til viðbótar.

Hvernig var að kaupa skuttogara á þessum árum?

„Það tók meira en ár að fá öll leyfi. Það þurfti ýmis gögn og formlegar heimildir, við fórum m.a. á fund forsætisráðherra. Stuðningur Odds Ólafssonar, þá þingmanns Sjálfstæðisflokksins, Matthíasar Bjarnasonar sjávarútvegsráðherra og Sverris Júlíussonar forstjóra Fiskveiðisjóðs skipti miklu.“

Hvernig voru kaupin fjármögnuð?

„Of stór hluti var eigið fé og það gekk hratt á, sem gerði annan rekstur erfiðan enda vorum við vanfjármögnuð í byrjun. Með þrotlausri vinnu gekk þetta þó þar til við seldum skipin og vinnsluna í Gerðum 1985.“

Til upphafsins

Guðbergur Ingólfsson var öflugur fiskverkandi í Garði frá miðri síðustu öld og fram á tíunda áratuginn. Hann hóf saltfiskverkun 1952 í Útgarðinum og byggði hana jafnt og þétt upp. Í Gerðum var rekið Hraðfrystihús Gerðabátanna frá 1942 sem lenti í kröggum og fór til Landsbankans. Bankinn leitaði til Guðbergs og bauð honum að kaupa frystihúsið í samvinnu við Gerðabræður. Allt gekk vel í góðu samkomulagi; vilji var til að halda starfseminni í húsinu og að heimamenn hefðu reksturinn á sínum höndum.

Stór saltfiskverkun í Útgarðinum og hraðfrystihúsið í Gerðum kölluðu á mikið hráefni. Fram til 1975 kom aflinn frá hefðbundnum vertíðarbátum. Með tilkomu Erlings GK, fyrsta skuttogarans í Garði, varð mikil breyting: fiskur fór að streyma í hús í áður óþekktu magni.

Erlingur kom til landsins 23. desember og fór strax til veiða á milli hátíða. 2. janúar 1976 kom hann að landi með fullfermi, 120 tonn.

Fyrirtækið gerði síðar einnig út skuttogarann Sveinborgu GK 70 (frá 1981) og Ingólf GK 42 (frá 1979), sem sagður er hafa verið síðasti síðutogarinn í útgerð á Íslandi.

Erlingur GK 6 kemur nýr til landsins á Þorláksmessu 1975.

Fyrir tíma kvótakerfisins

Útgerð Erlings GK hófst fyrir kvótakerfið. Í gildi var svokallað skrapdagakerfi sem bannaði t.d. veiðar á þorski á ákveðnum dögum; þá var veiddur karfi eða aðrar tegundir, og um tíma var stunduð rækjuveiði. Þá daga sem mátti veiða þorsk gátu menn veitt að vild.

Erlingur GK sótti mikið á Vestfjarðamið og á skrapdögum í Grindavíkurdýpið og á sker suður og vestur af Reykjanesi. Nánast ekkert var sótt austur fyrir land.

Tilkoma togarans var bylting í veiðum og vinnslu. Haustin höfðu áður verið léleg, línuveiðar takmarkaðar og erfitt að ná jöfnum rekstri. Eftir að Erlingur GK kom var aldrei vöntun á fiski og stundum sigldi hann með fisk á erlenda markaði þegar of mikið var fyrir húsið.

Aflinn fór í vinnslu hjá Ísstöðinni í Gerðum og í saltfiskverkun Guðbergs; einnig var skreið verkuð. Jón Erlingsson, 20% hluthafi í Erlingi GK, fékk jafnframt fisk til vinnslu hjá sér í Sandgerði, og eftir þörfum af Ingólfi GK og Sveinborgu GK.

Sumrin gátu orðið erfið í landvinnslu vegna mikils afla og vinnubann um helgar (frá föstudagskvöldi til mánudagsmorguns) auðveldaði ekki hlutina. Þá var saltað og hengt upp þegar of mikið var, og jafnvel siglt á erlenda markaði.

Sveinn Jónsson skipstjóri lengst til vinstri  og hluti áhafnar Erlings GK.

„Óvanur“ skipstjóri sem rótfiskaði

Þegar Erlingur GK kom 1975 þótti athyglisvert að skipstjórinn var óvanur sem togaraskipstjóri. Sveinn Jónsson hafði verið skipstjóri á hefðbundnum vertíðarbátum á netum. Erlingur GK lék í höndum Sveins; hann rótfiskaði og var öll árin meðal tíu aflahæstu togaraskipstjóra landsins, á tímum þegar skuttogararnir voru um hundrað talsins.

Það var engin tilviljun að Sveinn endaði í Garði. Jónatan Stefánsson vélstjóri (sem nú er látinn) þekkti Svein vel og mælti með honum. Sveinn fór í nokkra túra með öðrum skuttogurum til að kynnast veiðunum og kom með góða þekkingu sem nýttist m.a. til breytinga á Erlingi GK áður en hann kom til landsins.

Áhöfnin taldi 15 menn hverju sinni; um tíu þeirra voru í áhöfn allan áratuginn sem skipið var gert út frá Garði.

Vegna takmarkaðrar hafnaraðstöðu í Garði var aflanum landað í Keflavík og síðar í Sandgerði og ekið í vinnsluna í Garðinum.

Þá eins og nú þurfti iðnaðarmenn um borð þegar skip kom í höfn. Lögð var áhersla á að nýta fólk úr heimabyggð. „Pabbi var mikill talsmaður þess að halda uppi vinnu og við vorum svolítið eins og Grindvíkingar að nota allt sem hægt var úr plássinu,“ segir Þórarinn.

Yfir 200 í landvinnslu

Samhliða togaraútgerðinni var öflug landvinnsla í Garði, með yfir tvö hundruð starfsmenn lengst af. Vinnslan hélst vel á starfsfólki og margir unnu hjá fyrirtækjunum árum saman. Hjá Ísstöðinni í Gerðum var mikið unnið í smærri pakkningar, sem skapaði mikla atvinnu. Starfsfólk kom úr Garði og Keflavík, var sótt með rútum á morgnana, því ekið heim í hádegismat og aftur í lok vinnudags.

Vörubílstjórar fóru víða um land að sækja saltfisk, jafnvel austur á Höfn og Breiðdalsvík og fluttu í Garðinn. Þetta var áður en Skeiðará var brúuð og því þurfti að aka um Norðurland og þræða Austfirði, oft á misgóðum malarvegum.

Starfsemi Ísstöðvarinnar var seld árið 1985 og togararnir fóru á sama tíma. Guðbergur Ingólfsson hélt áfram saltfiskverkun í Útgarðinum inn á tíunda áratug síðustu aldar. Guðbergur lést 1. nóvember 1995. Síðar tóku Theodór og Sævar, synir hans, við keflinu og héldu saltfiskverkun áfram í sama húsakosti. Þeir eru báðir látnir.

Þórarinn hélt til útlanda og starfaði við sölu fiskafurða um skeið, þar til hann kynntist skipamiðlun og skipasölu sem hann starfar við enn í dag hjá Alasund Shipbrokers ehf. ásamt syni sínum.

------------------

Hér að neðan má sjá nokkrar myndir sem voru teknar í sjóferð með Erlingi GK og einnig úr saltfiskverkun Guðbergs Ingólfssonar í Garði og þarna má einnig sjá Friðrik Árnason vélstjóra í Ísstöðinni í Gerðum. Myndirnar eru úr einkasafni.

Erlingur GK 6 og saltfiskvinnsla í Garði

Dubliner
Dubliner