Leikskólinn Holt í Njarðvík hlýtur samfélagsstyrk Krónunnar
Fjórtán verkefni hljóta samfélagsstyrk Krónunnar í ár og meðal þeirra sem hlutu styrk er leikskólinn Holt í Njarðvík til kaupa á svokölluðu Bambahúsi. Bambahús er umhverfisvænt gróðurhús gert úr endurnýtanlegum efnum sem nýtist til að rækta grænmeti allt árið um kring og á sama tíma fræða börnin um mikilvægi þess að vita hvaða einstök matvæli koma.
Náttúran sem þriðji kennarinn
Leikskólinn Holt leggur áherslu á sjálfbærni, náttúruvernd og umhverfismennt þar sem börnin eru frædd um náttúru og umhverfið, ásamt því að kenna þeim að umgangast hana af virðingu. Leikskólinn hefur hlotið Grænfánann og vinnur nú að endurnýjun hans, með flokkun, endurvinnslu og efnivið í skapandi starfi að leiðarljósi.
„Við erum Krónunni afar þakklát fyrir Bambahúsið sem mun verða mikilvægur hlekkur í kennslu og áherslum hvað varðar umhverfisvitund og náttúruna. Við nýtum náttúruna sem þriðja kennarann þar sem börnin læra með líkamanum, bæði skynjun og sköpun. Við hlökkum til að fylgjast með börnunum okkar rækta, ekki aðeins grænmeti og aðrar jurtir, heldur einnig samvinnu, vitsmunaþroska og virðingu fyrir náttúrunni,“ segir Sigurbjört Kristjánsdóttir, aðstoðarleikskólastjóri á Holti.
Áhersla á umhverfisvitund, hollustu og hreyfingu
Krónan hefur frá árinu 2013 veitt samfélagsstyrki en á síðustu árum hefur áhersla verið lögð á að ýta undir verkefni sem stuðla að umhverfisvitund eða aukinni lýðheilsu þar sem sjónum er einkum beint að ungu kynslóðinni. Fjórar stofnanir hlutu Bambahús í ár og hefur Krónan lagt ríkari áherslu á að veita styrki til kaupa á slíkum gróðurhúsum sem nýtist einna helst til að fræða um flest sem við kemur ræktun grænmetis og hringrásarhagkerfinu, allt árið um kring.







