Dubliner
Dubliner

Fréttir

Magn kviku undir Svartsengi heldur áfram að aukast
Hér er bylgjuvíxlmynd úr brunni Veðurstofu Íslands sem túlkar landris í Svartsengi á tímabilinu 8. til 22. nóvember.
Miðvikudagur 26. nóvember 2025 kl. 11:03

Magn kviku undir Svartsengi heldur áfram að aukast

Landris og kvikusöfnun undir Svartsengi heldur áfram. Hraði kvikusöfnunar hefur haldist nokkuð stöðugur undanfarnar tvær vikur. Líkanreikningar gera ráð fyrir að á milli 16 og 17 milljón rúmmetrar af kviku hafi safnast undir Svartsengi frá síðasta eldgosi í júlí. Þetta kemur fram í tilkynningu Veðurstofu Íslands.

Magn kviku sem hljóp úr Svartsengi yfir í Sundhnúksgígaröðina í eldgosinu sem hófst 16. júlí var áætlað um 11 – 13 milljón m3. Miðað við reynslu af eldgosum á Sundhnúksgígaröðinni er gert ráð fyrir að líkurnar á nýju kvikuhlaupi og eldgosi aukist þegar um það bil jafn mikið magn af kviku hefur safnast aftur undir Svartsengi og hljóp þaðan í atburðinum á undan.

Nýsprautun vetrardekk
Nýsprautun vetrardekk

Í byrjun október sýndu líkanreikningar um 11 milljón m3 af kviku höfðu aftur bæst við söfnunarsvæðið undir Svartsengi. Þá hófst tímabil, sem stendur enn, þar sem gera þarf ráð fyrir auknum líkum á nýju kvikuhlaupi og eldgosi.

Hægari hraði kvikusöfnunar eykur óvissu í tímasetningu næsta atburðar

Í aðdraganda þeirra eldgosa sem hafa orðið á Sundhnúksgígaröðinni hefur hraði kvikusöfnunar verið breytilegur. Kvikuinnflæði í söfnunarsvæðið undir Svartsengi er nú áætlað um 1 m3/s, en sé litið til síðustu eldgosa sýna líkanreikningar að smám saman hefur dregið úr hraða innflæðis með hverju eldgosi. Því hægari sem kvikusöfnunin er því erfiðara er að áætla tímasetningu næsta eldgoss. Miðað við þekkingu á atburðunum á Sundhnúksgígaröðinni í dag, er ekki hægt að áætla tímasetningu á næsta atburði með nákvæmni sem er meiri en nokkrir mánuðir.

Reynslan af síðustu atburðum hefur einnig sýnt að hraði söfnunarinnar þarf ekki að breytast mikið svo að tímasetning á næsta mögulega eldgosi breytist um nokkrar vikur. Óvissan í tímasetningu á næsta atburði er því töluverð og núverandi kvikusöfnunartímabil gæti dregist á langinn. 

Ef horft er til eldgosa á Sundhnúksgígaröðinni síðan í mars 2024 má sjá að það magn kviku sem hlaupið hefur úr Svartsengi hefur að meðaltali verið um 21-23 milljónir m3. Sé gert ráð fyrir því að hraði kvikusöfnunar haldist óbreyttur, verður því rúmmáli náð í byrjun febrúar 2026, eins og sést á eftirfarandi grafi sem sýnir þróun kvikusöfnunar undir Svartsengi frá síðasta eldgosi á Sundhnúksgígaröðinni.

Graf_Kvikusofnun_25112025

Graf sem sýnir líkanútreikninga á kvikusöfnun á 4 km dýpi undir Svartsengi frá 17. júlí. Svörtu punktarnir sýna daglega líkanútreikninga  á rúmmáli kviku frá júlí 2025 til dagsins í dag. Skyggða svæðið í framhaldi af punktunum táknar spá um kvikusöfnun miðað við að hraði kvikusöfnunar haldist óbreyttur. Gula svæði grafsins ræðst af „neðri“ og „efri“ mörkum rúmmáls í líkanútreikningunum og út frá því er það tímabil metið þar sem auknar líkur eru taldar á kvikuhlaupi og eldgosi „Mogi“ táknar heiti þess líkans sem stuðst er við í útreikningum.

Jarðskjálftavirkni við Svartsengi og Krýsuvík

Áfram mælist lítil skjálftavirkni við Svartsengi og Grindavík. Jarðskjálftavirkni við Krýsuvík heldur áfram að minnka og aflögunarmælingar sýna að landsig við Krýsuvík hefur nokkurn veginn stöðvast.

Hættumat 

Hættumatskort hefur verið uppfært og helst óbreytt til 9. desember, þegar nýr samráðsfundur vísindamanna verður haldinn. Veðurstofan fylgist náið með þróuninni og uppfærir matið ef breytingar verða á virkninni.

2025-11-25_haettumatskort_VI

Tvær breytingar hafa verið gerðar á framsetningu fyrir „Valin athugunarsvæði“ á kortinu. Nú eru notuð staðarheiti til að merkja svæðin, í stað númera og svæðin eru afmörkuð með brotalínum en ekki heilum línum.

Dubliner
Dubliner