Björg Ásta hyggur á framboð í Vogum - hættir hjá Sjálfstæðisflokknum
Björg Ásta Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, hefur ákveðið að láta af störfum en hún hyggur á framboð í komandi sveitarstjórnarkosningum í heimabæ sínum, Sveitarfélaginu Vogum.
„Undanfarnar vikur hef ég fengið mikla hvatningu til að bjóða mig fram í heimabæ mínum, Vogum, bæ sem ég brenn fyrir. Ég sé þar fjölmörg tækifæri til að efla þjónustu, treysta innviði og halda áfram að byggja upp sterkt og fjölskylduvænt samfélag. Til að geta undirbúið þá vegferð í góðu samtali við mitt fólk og mína sveitunga, tel ég ástæðu til að stíga til hliðar sem framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins,“ segir Björg Ásta.
Hún þakkar flokksmönnum öllum fyrir ánægjulegt samstarf og segist hlakka til að bjóða fram krafta sína fyrir flokkinn á vettvangi sveitarstjórnarstigsins.
„Það hefur verið mér mikill heiður að starfa sem framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins með öflugum hópi sjálfstæðismanna um allt land Ég hef fulla trú á forystunni og því mikilvæga starfi sem framundan er. Þá vil ég óska nýjum framkvæmdastjóra flokksins alls hins besta og velfarnaðar í störfum.”







