Fréttir

HSS til fyrirmyndar
Mánudagur 24. nóvember 2025 kl. 14:36

HSS til fyrirmyndar

Stóraukin ánægja mælist í þjónustukönnun ríkisstofnana

Notendur Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja (HSS) eru nú almennt ánægðari með þjónustu stofnunarinnar samkvæmt niðurstöðum samræmdrar þjónustukönnunar á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Heildaránægja með þjónustu HSS mælist nú 4,5 stig af 5 mögulegum. Mest ánægja er með viðmót starfsfólks og áreiðanleika upplýsinga til notenda. Þetta kemur fram á vef Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja.

Þegar niðurstöður könnunarinnar eru bornar saman við árangur annarra heilbrigðisstofnana má sjá að HSS er deilir annað hvort hæstu eða næst hæstu einkunn með öðrum heilbrigðisstofnunum. HSS er að fá á bilinu 4,2 til 4,6 stig af fimm mögulegum í öllum þáttum könnunarinnar. Veikasti þátturinn að mati notenda er hraði þjónustunnar þrátt fyrir að HSS skori þar hæst allra heilbrigðisstofnana.

Nýsprautun vetrardekk
Nýsprautun vetrardekk

Mikil ánægja með viðmót og upplýsingar

Samkvæmt niðurstöðunum er ánægja með viðmót starfsfólks HSS sérstaklega áberandi. Í opnum svörum lýstu notendur almennt jákvæðri upplifun af samskiptum við starfsfólk og telja það sýna hlýtt og faglegt viðmót. Í þessum þætti fær HSS 4,6 stig af 5 mögulegum. Það er mikil aukning frá því í fyrra þegar stofnunin fékk einungis 3 stig af 5 mögulegum. Samtals segja 94% svarenda að viðmót sé mjög gott eða frekar gott og þar af gáfu 74% svarenda hæstu einkunn „Mjög gott“.

Traust til upplýsinga frá HSS hefur aukist mjög. Notendur telja að upplýsingar sem þeir fá um heilsufar, meðferð og næstu skref séu skýrar og áreiðanlegar. Slíkt skiptir miklu máli í heilbrigðisþjónustu þar sem notendur eru margir í viðkvæmri stöðu og þurfa að geta treyst því að rétt sé staðið að málum. Í könnuninni gáfu 89% svarenda jákvæða umsögn og sögðu upplýsingar mjög áreiðanlegar eða frekar áreiðanlegar. Þar af voru 57% sem svöruðu „Mjög áreiðanlegar“.

Þegar spurt var út í heildaránægju með þjónustu HSS gáfu svarendur 4,5 stig af 5 mögulegum. Á síðasta ári fékk stofnunin 3,6 stig í þessum lið. Alls gáfu 91% stofnuninni jákvæða umsögn um ánægju með þjónustu; 66% voru mjög ánægð og 25% frekar ánægð.

Hraði þjónustunnar

Hraði þjónustunnar mælist lægstur af þeim þáttum sem teknir eru til skoðunar en þess ber að geta að einkunn HSS er hæst allra heilbrigðisstofnana. Alls gáfu 83% svarenda HSS jákvæða umsögn um hraða þjónustunnar. Þar af sögðu 43% að þjónustan hefði gengið mjög hratt fyrir sig og 40% að hún hafi gengið frekar hratt fyrir sig. Svarendur í könnuninni gáfu HSS samtals 4,2 stig fyrir hraða þjónustunnar. Í sömu könnun á síðasta ári fékk HSS 2,9 stig í þessum lið, þannig að um er að ræða verulegar framfarir á stuttum tíma.

Hluti af reglubundnu mati á þjónustu ríkisins

Könnun á þjónustu ríkisstofnana er unnin fyrir fjármála- og efnahagsráðuneytið og framkvæmd af Félagsvísindastofnun. Markmiðið er að meta ánægju með opinbera þjónustu og styðja við umbótastarf innan stofnana, meðal annars með því að varpa ljósi á styrkleika og veikleika í þjónustuferlinu.

Eingöngu notendur þjónustunnar geta svarað og fá könnun senda eftir að hafa nýtt sér þjónustu stofnunar Könnunin er lögð fyrir á íslensku, ensku, pólsku og íslensku táknmáli og svör eru ópersónugreinanleg.

Niðurstöðurnar gefa til kynna að HSS standi almennt vel að þjónustu við íbúa á Suðurnesjum og sé til fyrirmyndar. Þjónustukönnunin er uppfærð reglulega og mun þróun næstu ára gefa betri mynd af því hvort aðgerðir HSS til að bæta þjónustuna, , skili sér í enn meiri ánægju notenda í framtíðinni.

Heilbrigðisstofnun til fyrirmyndar

Sumarið 2024 hóf HSS viðamikla stefnumótunarvinnu í samráði við samfélagið á Suðurnesjum, íbúa, sveitafélögin og starfsfólk HSS sem fór að skilaði sér í breyttum áherslum, gildum og formlegri stefnumörkun seinni hluta ársins.

„Þakka ber stjórnendum og starfsfólki HSS fyrir að hafa tileinkað sér tillögur og athugasemdir frá íbúum við mótun og innleiðingu stefnunnar. Niðurstöður þjónustukönnunarinnar má túlka sem svo að áherslum samfélagsins hafi verið mætt. Vinnunni er þó hvergi nærri lokið enda mikið verk fram undan að tryggja áframhaldandi góða heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum,“ segir Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, forstjóri HSS, í pistlinum.

Miklar framkvæmdir hafa verið í gangi og ekki hefur verið komist hjá ýmsum óþægindum vegna framkvæmda við húsnæði og lóð HSS í Reykjanesbæ sem hafa truflað þjónustu en á móti kemur að ný heilsugæslusel í Suðurnesjabæ og Vogum hafa stórbætt aðgengi að þjónustu HSS.

Yfirstandandi er hönnun fyrirhugaðrar sjúkrabílamóttöku við slysa- og bráðamóttöku HSS og vonast er til að framkvæmdir geti hafist vorið 2026. Þá er einnig fyrirhugað að leita að stærra og betra húsnæði fyrir sálfélagslegra þjónustu HSS og heimahjúkrun.

„Áframhaldandi vaxtaverkir og viðhald munu hrjá starfsemina á komandi árum en það er vítamínsprauta að þjónustumælingin staðfestir að íbúar Suðurnesja beri traust til stofnunarinnar,“ segir Guðlaug Rakel jafnframt.

Heildarniðurstöður eru birtar á vefnum - Stjórnarráðið | Könnun á þjónustu ríkisstofnana



Dubliner
Dubliner