Dubliner
Dubliner

Fréttir

Háskóli Íslands tekur við rekstri Háskólabrúar Keilis
Miðvikudagur 19. nóvember 2025 kl. 16:09

Háskóli Íslands tekur við rekstri Háskólabrúar Keilis

Háskólabrú Keilis verður hluti af Háskóla Íslands frá og með næstu áramótum en starfsemi hennar verður áfram á Ásbrú á Suðurnesjum. Háskólaráð samþykkti tillögu þessa efnis á síðasta fundi sínum og gert er ráð fyrir að Háskólabrúin heyri undir Menntavísindasvið HÍ.

Keilir hefur boðið upp á Háskólabrú, sem er aðfararnám fyrir háskólanám, frá árinu 2007 og hefur Háskóli Íslands haft faglega umsjón með starfsemi hennar samkvæmt samningi við Keili. Háskólabrúin hefur verið hryggjarstykkið í rekstri Keilis frá upphafi en markmiðið með náminu er að gefa þeim sem ekki hafa lokið stúdentsprófi færi á að hefja háskólanám. Inntökuskilyrði í Háskólabrúna eru þau að umsækjendur séu orðnir 20 ára og hafi lokið ákveðnum fjölda eininga í framhaldsskóla eða skilgreindu starfsnámi.

Nýsprautun vetrardekk
Nýsprautun vetrardekk

Keilir er eini skólinn sem býður upp á aðfararnám í samstarfi við Háskóla Íslands og frá upphafi hefur vel á þriðja þúsund nemenda lokið námi hjá Háskólabrú Keilis og um 80% þeirra hafið nám í Háskóla Íslands.  

Þar sem stjórnvöld stefna að því að leysa hlutafélagið Keili upp skapaðist óvissa um framtíð Háskólabrúarinnar og því var starfshópi á vegum HÍ falið að greina stöðu mála í samráði við forstöðumann Keilis og heimafólk og skoða mögulegar leiðir til að eyða óvissu um rekstur Háskólabrúarinnar.

Starfshópurinn lagði til tvær leiðir, annars vegar að starfrækja Háskólabrúna innan Háskóla Íslands og hins vegar að stofna sérstakt félag um rekstur brúarinnar í umsjón HÍ og í samráði við sveitarfélögin á Suðurnesjum. Háskólaráð samþykkti að velja fyrrnefndu leiðina og hefur verið unnið að nánari útfærslu á flutningunum undir HÍ í góðu samstarfi við hagaðila, svo sem sveitarfélögin á Suðurnesjum og starfsfólk Háskólabrúar.

Starfsemin áfram á Suðurnesjum

Gert er ráð fyrir að starfsfólks Háskólabrúar Keilis verði starfsfólk HÍ og að starfsemin flytji í nýtt húsnæði á Ásbrú á Suðurnesjum en HÍ leggur ríka áherslu á að Háskólabrúin verði áfram rekin á Suðurnesjum í góðu samstarfi við nærliggjandi sveitarfélög. Með yfirfærslu Háskólabrúarinnar til Háskólans er ætlunin að efla enn frekar þessa starfsemi og nýta þá innviði og stuðning sem Háskólinn hefur upp á að bjóða. Til dæmis stendur til að skoða möguleika á námi sem er sérsniðið að innflytjendum sem hyggja á háskólanám.

„Um leið og ég býð nemendur og starfsfólk Keilis velkomin í Háskóla Íslands fagna ég því að Háskólabrúin verði hluti af Háskóla Íslands,“ segir Silja Bára. R. Ómarsdóttir, rektor Háskóla Íslands.  „Skólinn leggur mikla áherslu á jöfn tækifæri allra til náms og menntunar. Við vitum að menntun er lykill að lífsgæðum og hún felur beinlínis í sér efnahagslegan ávinning fyrir samfélag okkar. Háskólabrú Keilis í Háskóla Íslands gerir fólki kleift að ljúka námi á framhaldsskólastigi og opnar þar með á fjölmörg tækifæri til gefandi háskólanáms. Ég er afar stolt af þessu samfélagslega mikilvæga verkefni sem nú verður í góðum höndum á Menntavísindasviði Háskóla Íslands.“

„Þar sem óvissa hefur ríkt um framtíð Háskólabrúar Keilis er fagnaðarefni að Háskóli Íslands taki við rekstrinum. Samstarf Keilis og Háskóla Íslands hefur verið farsælt frá upphafi og er starfsfólk Keilis þakklátt fyrir að nú sé búið að tryggja framtíð Háskólabrúar,“ segir Berglind Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Keilis. „Með tilfærslu á rekstri Háskólabrúar geta skapast aukin tækifæri fyrir nemendur, starfsfólk sem og samfélagið. Keilir hefur ávallt lagt metnað í að bjóða upp á gæðanám og þjónustu líkt og Háskóli Íslands og því er ég sannfærð um að sameinaðir kraftar skapi enn frekari tækifæri til þróunar í menntamálum. Þá er aukin tenging við Háskóla Íslands mikilvæg fyrir samfélagið á Suðurnesjum sem getur leitt til frekari menntunartækifæra fyrir Suðurnesin og landið allt en Keilir hefur verið í fremstu röð í fjarnámi undanfarin ár og markmiðið er að halda því metnaðarfulla starfi áfram.“

Dubliner
Dubliner