103 milljónir á fimm árum til tuttugu og fimm góðgerðaraðila
„Þetta gekk eins og í sögu og það er komið mikið traust á Góðgerðarfest Blue. Við förum af stað á hverju ári og einhvern veginn tekst okkur að stækka þetta í hvert sinn,“ segir Þorsteinn Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Blue Car Rental en rúmar 103 milljónir króna söfnuðust í ár. Þær fóru í hendur nýrra eigenda fyrir skömmu þegar Blue bræðurnir, Þorsteinn og Magnús Sverrir Þorsteinssynir afhentu tuttugu og fimm aðilum styrki.
Að þessu sinni söfnuðust 31,3 milljónir króna, mestmegnis í gegnum fyrirtæki. „Yfir hundrað fyrirtæki tóku þátt,“ segir Þorsteinn. „Svo bætir ólukkuhjólið á kvöldinu aðeins í. En heilt yfir eru þetta fyrirtækin, samstarfsaðilar okkar, birgjar og jafnvel samkeppnisaðilar.“
Upphafið var einfalt. „Hugmynd kom úr starfsmannafélaginu um að halda partý,“ rifjar Þorsteinn upp. „Stemningin var svo góð að við hugsuðum, við verðum að gera meira úr þessu. Úr varð Góðgerðarfest Blue.“ Síðan hefur verkefnið vaxið jafnt og þétt. „Við erum að gera þetta í fimmta skipti og samtals hafa 103 milljónir safnast á þessum fimm árum. Það er algjörlega magnað,“ en nokkrar af þekktustu tónlistarmönnum landsins komu fram á góðgerðarfestinu.
Áhugi er mikill fyrir styrktarsjóði Góðgerðarfest Blue og þangað leita margir eftir stuðningi. „Við fengum hátt í 70 umsóknir í ár,“ segir hann. „Við styrkjum fyrst og fremst sérúrræði fyrir börn og einstaklinga með sérþarfir og höfum reynt að halda okkur við það.“
Um leið hefur sviðið víkkað. „Við útvíkkuðum það meira í ár og lögðum aukna áherslu á Suðurnes og Reykjanesbæ.“
Aðspurður út í styrkveitingarnar segir Þorsteinn. „Við fylgjumst með, spyrjum spurninga, förum í heimsóknir og fáum tölvupósta. Þakkirnar sem berast fyrir og eftir afhendingu eru langmesti drifkrafturinn. Partýið sjálft og svo öll samskiptin í kring sem gera þetta skemmtilegt og gefandi.“
Nýr vettvangur, sama stemning
Í ár færðist hátíðin á nýjan stað. „Við fórum í reiðhöllina hjá Mána og það kom frábærlega út,“ segir Þorsteinn. „Það var gaman að vera á svona óhefðbundnum stað, þar sem enginn hafði í raun skemmt sér áður. Við töpuðum ekki stemningunni þó við færðum okkur úr bílaverkstæðinu, þvert á móti. Það komu tæplega þúsund manns í ár.“
Skipulagið er umfangsmikið. „Við byrjuðum í maí og það er heljarinnar verkefni, margir koma að en árangurinn er mjög gefandi og vinnan öll svo skemmtileg.“
Magnús Sverrir Þorsteinsson, Ólafur Frosti Brynjarsson og Þorsteinn Þorsteinsson.
Hljóp 10 kílómetra og sótti tvær milljónir til Blue fyrir Minningarsjóð Ölla
Ólafur Frosti Brynjarsson tók við tveggja milljóna króna framlagi frá Blue í Minningarsjóð Ölla. Hann hljóp tíu kílómetra í Reykjavíkurmaraþoninu í sumar til styrktar sjóðnum og safnaði sjálfur um 150 þúsund krónum. „Ég hljóp þessa tíu kílómetra á um fimmtíu mínútum og safnaði mest í sjóðinn líka,“ segir stoltur fulltrúi Minningarsjóðsins eftir að hafa tekið við framlaginu úr Góðgerðarfesti Blue.
Hvað kveikti hugmyndina að maraþonhlaupinu?
„Mamma mín stakk upp á þessu,“ segir hann kíminn. „Ég skoðaði þetta og sagði strax já.“
Engin bein tengsl Ólafs við sjóðinn liggja að baki, en fjölskylda hans er úr Reykjanesbæ og þekkir vel til Minningarsjóðs Ölla. Ólafur er í fjórða flokki með Keflavík og er í sjöunda bekk. Hann segir skóla og íþróttir ganga vel og framtíðin verði vonandi íþróttatengd. „Já, örugglega eitthvað í íþróttum, hundrað prósent,“ segir hann. Stóra maraþonið bíður þó aðeins. „Ekki alveg strax, geymi það kannski. Þegar ég verð kominn í níunda bekk, þá mun ég kannski reyna það,“ segir hann og brosir.
Hann veit nákvæmlega fyrir hvað Minningarsjóður Ölla stendur. „Hann hjálpar börnum að geta æft íþróttir, borgar þátttökugjöld og svona,“ útskýrir Ólafur. „Mér finnst þetta mjög mikilvægt.“
Framlagið frá Blue styrkir því markmið sjóðsins enn betur, sem mun skipta sköpum fyrir fjölmörg börn og ungmenni, börn sem annars gætu átt í erfiðleikum með að standa straum af kostnaði.
Aðspurður um hans stuðning við minningarsjóðinn í sumar segir Ólafur. „Já, ég er bara mjög stoltur af mér sjálfum,“ segir hann, og útilokar ekki framhald á stuðningi við sjóðinn. „Ég geri þetta klárlega aftur á næsta ári.“
Magnús Sverrir Þorsteinsson, Gunnhildur Gunnarsdóttir, Þórdís H. Jónsdóttir og Þorsteinn Þorsteinsson.
„Viljum grípa áður en vandinn stækkar“
Gunnhildur Gunnarsdóttir, forstöðumaður 88 hússins og Fjörheima, og Þórdís H. Jónsdóttir, ráðgjafi hjá Hlýjunni, tóku við framlagi til Hlýjunar á Góðgerðarfesti Blue. Hlýjan er nýtt lágþröskulda úrræði fyrir börn og ungmenni, ókeypis ráðgjöf sem setur vellíðan í forgang og er veitt í heimabyggð.
Hvað er Hlýjan?
„Hlýjan er lágþröskulda ráðgjöf fyrir ungmenni, ókeypis viðtöl fyrir börn á aldrinum 13 til 18 ára,“ útskýrir Þórdís H. Jónsdóttir. „Við erum í heimabyggð, þjónustan er aðgengileg og hægt er að bóka tíma rafrænt, sem er ótrúlega þægilegt.“
Úrræðið er nýtt, en markmiðin skýr. „Við viljum grípa börn og ungmenni áður en vandinn verður stór,“ segir Gunnhildur Gunnarsdóttir. „Þetta er ráðgjöf, ekki meðferð. Fólk kemur af ýmsum ástæðum, við viljum forðast stimplun og halda fókus á vellíðan.“
Af hverju núna?
„Andleg líðan ungmenna á svæðinu er mjög slæm, verri en á landsvísu,“ segir Þórdís. „Þess vegna skiptir styrkurinn okkur miklu máli. Við viljum bjóða snemmtæka íhlutun og liðsinna ungmennum núna.“
Gunnhildur bendir á að undirbúningur hafi verið langur og markviss. „Verkefnið var í fæðingu í um fimm ár. Það er margt sem þarf að græja áður en svona úrræði opnar, við ákváðum samt að fara af stað og sýna fram á þörfina. Þess vegna er styrkurinn svo kærkominn.“
Hvernig virkar þjónustan?
Aðgengi er lykilatriði en hægt er að bóka á noona.is. „Allir tímar eru bókaðir rafrænt,“ segir Þórdís. „Við erum staðsett í Fjörheimum, þar er viðtalsherbergi og við bjóðum viðtöl á miðvikudögum frá fjögur til sex. Markmiðið er að vera nálægt krökkunum, á þeirra forsendum.“
Hlýjan hefur kynnt úrræðið víða. „Við kynntum þjónustuna fyrir öllum vinnuskólahópum í sumar og höfum farið inn í skólana,“ segir Gunnhildur. „Við erum búin að kynna þetta fyrir skólastjórnendum og starfsfólki. Það væri frábært að fá skólana sem mest með í lið, að vísa börnum áfram þegar þau leita ráða.“
Fyrir hverja, og með hvaða áherslum?
Ráðgjöfin er opin og sveigjanleg. „Ástæður þess að fólk leitar til ráðgjafa eru mjög misjafnar,“ segir Þórdís. „Við viljum ekki stimpla neitt, en auðvitað snýst þetta um andlega heilsu. Fókusinn er á vellíðan barnsins og ungmennisins, og ef þörf er á frekari þjónustu hjálpum við til við að tengja áfram.“
Þakklæti, metnaður og næstu skref
„Við erum ótrúlega þakklátar,“ segir Þórdís. „Samfélagið hefur tekið vel í þetta og styrkurinn skiptir okkur miklu máli til að halda áfram að bjóða upp á þjónustuna.“
„Vonin er að þjónustan vaxi og dafni,“ bætir Gunnhildur við. „Við sjáum þörfina, við viljum að börn og ungmenni bóki tíma, leiti sér aðstoðar og fái rými til að styrkja sig.“
Magnús Sverrir Þorsteinsson, Andrea Rói Sigurbjörnsdóttir, Hildur Helgadóttir og Þorsteinn Þorsteinsson.
Tómstundatækifæri fyrir fötluð börn
ölda fatlaðra barna og ungmenna frá árinu 1963, hefur fengið rausnarlegan styrk frá Góðgerðarfesti Blue Car Rental. Styrkurinn fer beint í það sem krökkunum þykir skemmtilegast, óvissuferðir, ævintýri og uppákomur sem brjóta upp daginn.
„Við reynum að fara út fyrir rammann í hverri viku og gera eitthvað hvetjandi og nýtt,“ segir Hildur Helgadóttir, sem tók á móti styrknum. „Styrkurinn fer beint í þetta, að skapa ævintýri fyrir hópana.“ Í Reykjadal dvelja krakkarnir í átta nætur í senn. Tímanum er varið í leik, sund og útiveru, auk langþráðrar óvissuferðar.
Andrea Rói Sigurbjörnsdóttir, sem starfar í Reykjadal, segir markmiðið einfalt og stórt í senn, að gefa tækifæri. „Fyrst og fremst er þetta tómstundatækifæri fyrir fötluð börn og ungmenni, að prófa eitthvað nýtt, lenda í ævintýrum og gera hluti sem þau gera ekki endilega heima,“ segir hún. „Þetta eru sumarbúðir með frábærum stuðningi.“
Aðstaðan í Mosfellsdalnum skiptir miklu. Þar er glæsileg sundlaug og rúmgott útisvæði, náttúran er allt í kring. „Við erum ótrúlega heppin með nágrannana og umhverfið,“ segir Hildur. „Stundum fáum við að kíkja í garða í heimsókn, það er algjör draumur fyrir krakkana.“
Áhrifin sjást best að sumarlokum. „Flestir vilja koma aftur og aftur, margir vilja helst ekki fara heim þegar foreldrarnir mæta að sækja þau,“ segir Andrea og brosir. „Stundum þurfum við að ýta þeim blíðlega út úr húsinu.“
Baklandið er sterkt og hjartað slær víða. Að baki Reykjadal stendur Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra, sem vinnur að nafnabreytingu um þessar mundir. Í kringum sumarbúðirnar er einnig öflugt samfélag sjálfboðaliða, velunnara og fyrirtækja. „Allir landsmenn þekkja Reykjadal, fólk tekur þátt í söfnunum og fyrirtæki eins og Blue styðja okkur í því að vera til staðar fyrir fötluð börn á Íslandi,“ segir Andrea.
Hildur segir styrkinn frá Góðgerðarfesti Blue skipta sköpum í daglegu starfi. „Þetta fer beint inn í upplifunina, meira fjör, meira frelsi og fleiri tækifæri. Við kunnum virkilega að meta þetta framtak Blue.“

