Emil Páll Jónsson látinn
Emil Páll Jónsson, fyrrverandi ritstjóri á Víkurfréttum, lést á hjúkrunarheimilinu Nesvöllum í Reykjanesbæ 16. nóvember sl. eftir veikindi, 76 ára að aldri.
Emil var fæddur 10. mars 1949 og uppalinn í Keflavík. Hann kvæntist Svanhildi Benónýsdóttur 1973 en hún lést árið 2019. Hún átti fyrir Halldór Grétar Guðmundsson sem Emil gekk í föður stað en saman eignuðust þau dótturina Helgu Katrínu 1984.
Emil var annar tveggja stofnenda Víkurfrétta ehf. árið 1983 sem tók við útgáfu blaðsins af stofnendum þess í Prentsmiðjunni Grágás og starfaði sem annar tveggja ritstjóra til ársins 1993. Hann vann einnig við blaðið þegar það var í eigu Grágásar en þar á undan starfaði hann á skrifstofu Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis, hann stundaði sjómennsku í nokkur ár og var um tíma fréttaritari fyrir Ríkisútvarpið. Eftir árin á Víkurfréttum kom Emil að útgáfu fleiri bæjar- og kynningarblaða á Suðurnesjum og var auk þess áfram með ljósmyndavélina á lofti og var duglegur að mynda báta og skip sem voru hans ær og kýr.
Víkurfréttir þakka Emil fyrir samfylgdina og hans framlag í starfsemi blaðsins.
Útför hans verður frá Keflavíkurkirkju þriðjudaginn 25. nóvember kl. 13.




