Gagnrýnir hugmyndir um að rukka fyrirtæki og sveitarfélög um kostnað vegna náttúruhamfara
„Það er tímamótadagur í dag, 10. nóvember. Tvö ár eru liðin frá rýmingu þegar allt breyttist hjá okkur Grindvíkingum,“ sagði Guðbjörg Eyjólfsdóttir hjá Járngerði á vikulegum Teams-fundi hagaðila sem birtur er á vef Víkurfrétta í dag. Hún lýsti yfir áhyggjum af því að „tíunda eldgosið“ vofi nú yfir og að það torveldi endurreisn og uppbyggingu í bænum.
Guðbjörg sagði að þrátt fyrir erfiðar aðstæður héldi samfélagið í Grindavík í vonina. „Það sem heldur okkur gangandi er vonin og trúin á verkefnið. Að Grindavík verði aftur blómlegur og flottur bær með góðu samfélagi sem við þekkjum og bjuggum í. Margt hefur verið gert og mannlífið er orðið með ágætum… og við bindum vonir um að hægt verði að halda áfram með öruggum og góðum skrefum.“
Hún þakkaði landsmönnum fyrir víðtækan stuðning. „Við, allir Grindvíkingar, viljum þakka fyrir þann mikla og góða stuðning sem við höfum fengið… Það hefur hjálpað okkur mikið á þessum erfiðu tímum þar sem við höfum þurft að takast á við ýmsar áskoranir.“
Guðbjörg gagnrýndi jafnframt nýlega ummæli fjármálaráðherra um að láta fara yfir kostnað vegna varnargarða og kanna hvort senda megi fyrirtækjum á Svartsengi reikninga vegna kostnaðarhlutdeildar tengdri náttúruhamförum. „Ég spyr, er þetta það sem koma skal? Fyrirtæki fá sendan reikning og jafnvel sveitarfélögin líka ef náttúruhamfarir ríða yfir. Hvernig er komið fyrir stjórnmálamönnum í dag og hvað á að seilast langt aftur til þess að sækja fjármuni? Eru þetta kannski skýr skilaboð til okkar á landsbyggðinni?“
Að hennar mati eflir slíkur þankagangur ekki öryggi íbúa. „Það biður ekkert fyrirtæki og ekkert samfélag að lenda í svona hremmingum… Og að sjálfsögðu geta náttúruhamfarir komið á höfuðborgarsvæðinu líka.“
Í lokin setti hún fram skýlausa kröfu til stjórnvalda: „Við hjá Járngerði gerum þá kröfu á fjármálaráðherra og ríkisstjórn Íslands að hverfa frá þessari tillögu hið snarasta.“
Horfa má á fundinn í spilaranum hér að ofan.

