Glæsileg aðstaða fyrir allt að 120 börn í Innri-Njarðvík
Leikskólinn Drekadalur tekinn í notkun í Dalshverfi
Nýr leikskóli í Reykjanesbæ, Drekadalur, hefur nú opnað í nýju og glæsilegu húsnæði í hjarta Dalshverfis 3 í Innri-Njarðvík. Leikskólinn hefur fram að þessu starfað í tímabundinni aðstöðu í Keili á Ásbrú, en nú eru börn og starfsfólk flutt í varanlega aðstöðu. Frá þessu er greint á vef Reykjanesbæjar.
Drekadalur er hannaður fyrir um 120 börn þegar reksturinn verður kominn að fullu. Fyrsti áfanginn felur í sér þrjár heimastofur – Hákot, Stapakot og Tjarnarkot – með rými fyrir allt að 90 börn. Um þessar mundir eru um 50 börn í leikskólanum, sem flest hafa verið í Leikskólanum Drekadal í Keili á meðan beðið var eftir opnun nýja hússins.
„Við erum að opna fyrsta áfangann núna og erum að auglýsa eftir fleiri kennurum í okkar góða hóp til að geta tekið á móti fleiri börnum,“ segir María Petrína Berg, leikskólastjóri Drekadals. Rósa Íris Ólafsdóttir er aðstoðarleikskólastjóri.
Í seinni áfanga bætast svo heimastofurnar Drekakot og Móakot við, þar sem yngstu börnin í leikskólanum verða til húsa. Nöfn stofanna tengjast umhverfi og staðháttum hverfisins og hreyfisalur leikskólans ber heitið Njarðvík, sem undirstrikar tengsl leikskólans við nærumhverfið.
María Petrína segir flutninginn úr Keili í nýja húsið hafa gengið afar vel. Tveimur skipulagsdögum hafi verið varið í undirbúning og starfsfólk unnið fram á kvöld til að geta tekið á móti börnunum við sem bestar aðstæður. „Það er mikil ánægja með nýtt umhverfi og við finnum strax hvað það hefur góð áhrif á bæði börn og starfsfólk,“ segir hún.
Nýja húsnæðið er rúmgott og nútímalegt, með góða hljóðvist, loftræstingu og birtuskilyrði sem skapa rólegra og þægilegra andrúmsloft. Þá fær útisvæðið mikið lof og er talið eitt það glæsilegasta á landinu, með fjölbreyttum möguleikum til hreyfingar, leiks, könnunar og sköpunar sem styður félagsfærni og vellíðan barnanna.
Að sögn Maríu Petrínu er starfsfólkið afar stolt af nýja leikskólanum og sér fram á að Drekadalur verði traustur grunnur fyrir leik, nám og daglegt líf barna í Dalshverfi og nærliggjandi hverfum. „Það er ekki á hverjum degi sem nýr leikskóli opnar í Reykjanesbæ. Við erum afar ánægð með þessa viðbót við menntasamfélagið og hlökkum til að sjá börnin blómstra í leik og starfi í Drekadal,“ segir hún.







