Umferðin er sameiginlegt samfélagsverkefni - vel sótt minningarstund í Y-Njarðvíkurkirkju
Það var vel við hæfi að Njarðvíkingurinn Þórarinn Ingi Ingason, flugstjóri á þyrlu Landhelgisgæslunnar flygi suður með sjó en hann lenti henni svo fyrir framan Ytri-Njarðvíkurkirkju áður en minningarstund um fórnarlömp umferðarslysa fór fram í kirkjunni í dag. Það gustaði vel á nærstadda þegar Tóti lenti þyrlunni en flugstjórinn flaug yfir Njarðvíkurskóla á leiðinni en þar stundaði drengurinn sitt grunnskólanám.
Fjölmenni mætti á minningarstundina sem fór fram í kirkjunni. Hún hófst á slaginu tvö þegar Kvennakór Suðurnesja söng lagið „I think of angels“ eftir KK en lagið var spilað á öllum útvarpsstöðum landsins á sama tíma og er einkennislag þessa minningardags sem haldinn er árlega. Í kirkjunni mátti sjá lögreglu- og sjúkraliðsfólk auk félaga úr björgunarsveitum auk fleiri gesta
Séra Helga Kolbeinsdóttir sagði frá tilurð dagsins og Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ flutti ávarp og sagði m.a.: „Umferðin er sameiginlegt samfélagsverkefni. Þar byggir öryggið á samkennd, tillitsemi og virðingu,“ sagði bæjarstjórinn.
Að athöfn lokinni var öllum boðið í kaffi og kleinur í safnaðarheimili Ytri-Njarðvíkurkirkju.

Það var tilkomumikið þegar þyrla Landhelgisgæslan lenti fyrir framan Ytri-Njarðvíkurkirkju.

Kvennakór Suðurnesja opnaði minningarstundina þegar hann söng I think of angels.


Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri flutti ávarp









