Guðbjörg GK-9 komin heim til Grindavíkur
Nýr bátur Stakkavíkur ehf., Guðbjörg GK-9, kom á sunnudag til heimahafnar í Grindavík þar sem tekið var formlega á móti henni. Guðbjörg GK hafði komið stuttlega til hafnar daginn áður en svo haldið til veiða þar sem prófanir voru gerðar á búnaði bátsins.
Eigendur Stakkavíkur tóku á móti Guðbjörgu GK við Grindavíkurhöfn og var gestum boðið upp á rjómatertu og kleinur, sem skolað var niður með gosdrykkjum og grindvískum bjór í tilefni dagsins.
Guðbjörg kom til landsins í október 2023 með skipi frá Tyrklandi þar sem hún var smíðuð. Þetta var aðeins fáeinum dögum áður en miklar hamfarir urðu í náttúrunni í Grindavík og bærinn var rýmdur.
Loka frágangur og ýmiss búnaður var fullgerður hjá Skipasmíðastöð Njarðvíkur. Báturinn er 13 metra langur og 5,5 metra breiður, smíðaður úr stáli og áli; skrokkur er úr stáli neðan millidekks en ofan þess er smíðin öll úr áli.
Það er Ráðgarður – skiparáðgjöf sem hannaði bátinn, en Guðbjörg GK-9 bætist nú í ört endurnýjaðan bátaflota í Grindavík.


Hermann Ólafsson í Stakkavík tekur á móti spottanum þegar Guðbjörg GK lagðist að bryggju. VF/hilmarbragi






