Með Grindvíkingum fram á við
Þegar heilt samfélag þarf skyndilega að yfirgefa sitt vanalega umhverfi fylgir því bæði óvissa og nýjar áskoranir. Grindavíkingar misstu fyrir tveimur árum sitt kunnuglega nærumhverfi, sínar daglegu venjur, tengslanet og það hugræna samhengi sem fyllir lífið merkingu. Að finna fótfestu á ný tekur tíma, þolinmæði og traust. Það gerist ekki með hraðlausnum eða hvatningarorðum, heldur með samveru, hlustun og samvinnu.
Rauði krossinn á Íslandi og Grindavíkurbær hafa unnið saman frá því í maí 2024 að Viðnámsþrótti Suðurnesja sem er heildstætt langtíma stuðningsstarf er nær til barna, ungmenna, fjölskyldna, fólks á vinnualdri og eldri borgara. Verkefnin undir þessum hatti eru fjölbreytt af margvíslegum ástæðum: Fólk er á ólíkum stað í lífinu og þarf ólíkar leiðir til að endurheimta festu, tengsl og sjálfsmynd í breyttum aðstæðum. Markmiðið er skýrt: Að styðja fólk þar sem það er statt.
Samstarfið hefur verið mjög gott og Grindavíkurbær hefur lagt sig fram við að leiðbeina og vekja athygli á verkefnum af skýrleika og næmni. Verkefnin eru mismunandi að umfangi en öll tengjast sama grunni: Að tengsl haldi sér og fái að dafna í þeirri óvissu sem enn er til staðar. „Með þér“ er eitt af kjarnaverkefnunum og er unnið í samstarfi við KVAN. Í því býðst börnum og öðrum Grindvíkingum rými og hópastarf þar sem öll geta talað opinskátt um óvissu, sorg og framtíð en jafnframt fengið raunhæf verkfæri til að byggja upp sjálfsmynd og innri styrk. Skráningar hafa farið langt fram úr væntingum og biðlistar myndast, sem sýnir skýrt að þörfin fyrir þessi rými er mikil. Verkefnið stendur til júní 2026.
Sérstök áhersla er lögð á að valdefla ungt fólk í gegnum Ungmennaráð Grindavíkur. Þar er rödd ungmennanna sjálfra í aðalhlutverki og hefur bein áhrif á forgangsröðun og framkvæmd verkefna. Ungt fólk er ekki þiggjandi heldur leiðandi. Eins og fulltrúi Grindavíkurbæjar orðaði það: „Grindavík er samfélag - ekki bara landfræðilegur punktur. Þessi vinna snýst um að halda því samfélagi lifandi, þótt umgjörðin hafi breyst.“ Námskeiðaröðin „Fram á við“ er sérstaklega ætluð ungu fólki frá Grindavík (16–25 ára) sem vill styrkja seiglu, sjálfsmynd og getu til að takast á við áskoranir. Námskeiðin byggja á hagnýtum verkfærum úr hugrænni atferlismeðferð, því að vinna gegn frestun og að efla trú á eigin getu. Haustlotunni er að ljúka og ný námskeið hefjast á nýju ári.
Í húsi Rauða krossins í Reykjanesbæ eru haldin Mánudagskaffi fyrir eldri Grindvíkinga þar sem fólk heldur tengslum sem annars hefðu getað rofnað. Það er einfalt en áhrifamikið. Samverustundir og ferðir fyrir börn og fjölskyldur, meðal annars á Úlfljótsvatn og í Vatnaskóg, hafa hjálpað barnafjölskyldum að finna gleði, jafnvægi og samkennd á ný. Auk þess eru haldin HAM-námskeið á íslensku og pólsku, meðal annars í rafrænu formi, til að tryggja að fólk geti unnið úr áföllum á eigin tungumáli. Tungumál er ekki aukaatriði - það mótar hvernig við vinnum úr reynslu, sársauka og styrk. Verkefnin öll eru fjármögnuð
með stuðningi frá Rio Tinto, en megináherslan er sú að fólk finni fyrir stuðningi og fái aðstoð.
Að lokum má nefna það sem stendur upp úr þegar litið er yfir allt starfið: Þetta samfélag hefur sýnt mikla þrautseigju þrátt fyrir stórar áskoranir. Eins og hægt er að orða það einfalt og skýrt: Við mætum fólki þar sem það er. Þetta er vinna sem krefst virðingar, tíma og raunverulegs trausts. Það sem hefur skipt mestu er styrkur Grindavíkinga.
Höfundar:
Jasmina, verkefnastjóri Viðnámsþrótts Suðurnesja hjá Rauða krossinum á Íslandi.
Eggert Sólberg Jónsson, sviðsstjóri frístunda- og menningarsviðs Grindavíkurbæjar.







