Baldur Þórir Guðmundsson hlýtur Súluna
Súlan, menningarverðlaun Reykjanesbæjar fyrir árið 2025, verður afhent á fimmtudag. Verðlaunin eru veitt þeim sem hafa lagt sitt af mörkum til að auðga mannlíf og menningu samfélagsins með fjölbreyttum hætti og verður þetta í tuttugasta og níunda sinn sem Súlan verður afhent. Að þessu sinni kemur Súlan í hlut Baldurs Þóris Guðmundssonar tónlistarmanns. Verðlaunagripurinn er silfursúla eftir listakonuna Elísabetu Ásberg og vísar í sjófuglinn súluna í merki Reykjanesbæjar. Á merkinu rís upp hvít súla sem tákn um lifandi samfélag. Greint er frá viðurkenningunni á vef bæjarins.
Með viðurkenningunni vill bæjarstjórn Reykjanesbæjar þakka fyrir það mikilvæga framlag sem í því felst að eiga fólk sem vinnur að uppbyggingu jákvæðra málefna og sem leggur af mörkum til að auðga mannlíf og menningu samfélagsins með fjölbreyttum hætti. Það er menningar- og þjónusturáð Reykjanesbæjar sem tekur ákvörðun um hver skuli hljóta viðurkenninguna, að undangenginni auglýsingu þar sem óskað er eftir tilnefningum frá íbúum.
Baldur Þórir Guðmundsson hlýtur Súluna árið 2025 fyrir ómetanlegt framlag sitt til tónlistarlífs Reykjanesbæjar og fyrir ötult starf við að halda tónlistararfi og tónlistarsögu svæðisins á lofti.
Baldur hefur í áratugi verið einn af burðarásum tónlistar- og menningarlífs í Reykjanesbæ. Frá unglingsaldri hefur hann verið virkur í tónlist, jafnt á sviði sem á bak við tjöldin, sem hljóðfæraleikari, tónlistarstjóri, útsetjari og upptökustjóri. Hann hefur komið fram á ótal viðburðum, tónleikum og hátíðum, leikið við fjölbreyttar athafnir og spilað undir hjá fjölda söngvara á ferli sínum.
Hann hefur einnig gegnt mikilvægu hlutverki í upptöku og útgáfu tónlistar á Suðurnesjum, meðal annars í tengslum við Geimsteinsútgáfuna, þar sem hann hefur stýrt upptökum, útsett og unnið að útgáfu tónlistar með fjölmörgum listamönnum. Með því starfi hefur hann átt stóran þátt í að varðveita og miðla tónlistararfi svæðisins.
Baldur hefur jafnframt komið að skipulagningu og utanumhaldi tónleikahalds á svæðinu, meðal annars í tengslum við Ljósanótt og tekið á móti þúsundum gesta og sagt þeim fróðleiksmola og gamansögur úr rokkinu í Rokkheimi Rúnars Júlíussonar og í Rokksafni Íslands.
Framlag Baldurs Þóris Guðmundssonar til menningarlífs Reykjanesbæjar er víðtækt og hefur hann með starfi sínu átt mikilvægan þátt í að efla og varðveita tónlistararf svæðisins, ásamt því að hafa komið víða við í tónlistarlífi landsins.
Súlan verður afhent fimmtudaginn kl. 17:00 í Bergi, Hljómahöll. Athöfnin er opin öllum og við hvetjum íbúa til að mæta og fagna með Baldri Þóri.







