Utanríkisráðherra: Suðurnesin spila lykilhlutverk í að tryggja varnir landsins
„Suðurnesin spila lykilhlutverk í að tryggja varnir landsins og þetta undirstrikar að við Íslendingar erum öflugir bandamenn þegar kemur að því að sinna ákveðinni þjónustu á mjög mikilvægu svæði, sem er Norður-Atlantshafið. Samningurinn um nýjan viðlegukant í Helguvík er líka gott dæmi um hvernig hægt er að styrkja nærsamfélagið með svona mikilvægri framkvæmd, en um leið allt samfélagið í heild sinni,“ sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra að lokinni undirskrift um tíu milljarða framkvæmd um uppbyggingu varnarmannvirkja í Helguvík, í viðtali við VF.
(Viðtalið er meðfylgjandi í myndskeiði og í texta).
Suðurnesin þjónustuðu Keflavíkurflugvöll og varnarliðið í meira en hálfa öld. Er þetta að aukast aftur?
„Starfsemin mun ekki minnka, bara þannig að ég segi það. Þetta svæði er að mínu mati algjört lykilsvæði fyrir okkur núna í þeirri uppbyggingu sem þarf að eiga sér stað. Við erum að fara af stað núna í Helguvík með olíubirgðastöðina. Það þarf að halda áfram að byggja upp á öryggissvæðinu á Keflavík. Þannig að já, þetta er algjört lykilsvæði fyrir öryggi og varnir landsins.“
Hvað með starfsemina á öryggissvæðinu? Er hún bara að halda áfram að stækka?
„Já. Það er bara einfalt svar að hún verður að stækka. Við höfum gert okkur far um það, og ég er mjög stolt af því, að allar þessar flugsveitir sem hafa komið hingað í loftrýmisgæslu – ég er ekki viss um að fólk átti sig á því – þessar þjóðir, hvort sem það er Spánn eða Tékkland eða Finnar eða aðrar þjóðir sem hafa komið núna á þessu ári, að þær eru að leggja milljarða í að flytja hingað hergögn og flugvélar og fleira til þess að æfa sig á þessu svæði.
Við leggjum okkur fram um að vera þessi framúrskarandi gestgjafi, þessi gestaþjóð sem sinnir því sem þarf að sinna, og þá þurfum við að byggja hér upp innviði. Það þýðir að við þurfum til að mynda að halda áfram samhliða uppbyggingu Bandaríkjahers utan um P-8 kafbátaleitarvélarnar. Við þurfum að sinna því sem tengist innviðum þannig að þær geti verið hérna. Þetta er hluti af því sem við, sem aðildarríki NATO, getum gert. Við erum herlaus þjóð og ætlum að vera það áfram, en við erum þjóð rík af ábyrgðarkennd.“
Þannig að forsvarsmenn Atlantshafsbandalagsins tala um mikilvægi starfseminnar og staðsetningarinnar hérna?
„Já, algjörlega. Okkar mesti styrkleiki er þessi landfræðilega lega, staðan okkar, og mikilvægi hennar hefur síst minnkað undanfarið. Því miður er það þannig að Rússar, þeirra fókus á Norður-Atlantshafið og norðurslóðir, hefur ekkert minnkað þrátt fyrir hræðilega stríðið í Úkraínu. Við erum meðvituð um það, bæði sem NATO-ríki og NATO í heild sinni.
Þess vegna eru til að mynda Þjóðverjar – og ég er nýbúin að skrifa undir viljayfirlýsingu – að hugsa um að koma meira með ýmsa starfsemi. Þá erum við tilbúin. Það er okkar hlutverk að vera tilbúin og sýna að við erum þessi verðugi bandamaður sem við höfum verið í NATO.“
Helguvík er náttúrulega til, grunnurinn er til. Liggur þá ekki beinast við að halda áfram uppbyggingu þar í tengslum við þetta?
„Mér finnst það blasa við að svo sé. Það er ekki tilviljun að þetta er ákveðið hér. Fólk gæti sagt að það sé út frá einhverjum pólitískum þrýstingi, en það er líka verið að meta ekki bara landfræðilega legu landsins heldur líka þessarar hafnar í Helguvík og svæðisins.
Suðurnesin eru, að mínu mati, að spila lykilhlutverk í því að tryggja varnir landsins, en líka í því að sýna fram á hversu öflug við erum innan NATO í alls konar þjónustu og starfsemi.“
Manni finnst það liggja í loftinu að þetta eigi bara eftir að aukast á næstunni og að samstarf ríkisvaldsins við þetta svæði eigi eftir að aukast á næstu árum?
„Já, mér sýnist það svo vera og við vitum það. Við erum með ákveðið hættumat í gangi. Við erum með umræðuna núna um varnar- og öryggisstefnu og allt dregur þetta fram að við þurfum að gefa í á ákveðnum sviðum.
Á móti kemur að þetta eru svið sem við sjáum að nýtast ekki síst í borgaralegum tilgangi. Að efla Landhelgisgæsluna er mikilvægt út frá öryggi og vörnum, en það er ekki síst út frá öryggi sjófarenda. Ég hef sagt alveg eindregið að ég vil sjá þyrlu fyrir norðan sem tryggir öryggi innan ferðaþjónustunnar og sjófarenda, en gefur líka merkið: ´Við Íslendingar erum tilbúnir að gera það sem þarf til þess að þjónusta þá sem hingað koma’.
Við sjáum líka, og ég og fleiri höfum bent á, að til dæmis Keflavíkurflugvöllur og uppbygging hans var gerð í gegnum mannvirkjasjóð NATO. En fyrst og síðast er það borgaraleg starfsemi sem nýtur góðs af því. Þannig að þetta fer vel saman, en við þurfum að hafa augun á boltanum og halda áfram.“
Aðeins varðandi Landhelgisgæsluna. Maður heyrir af smá stoppi varðandi stækkun hafnarinnar í Njarðvík vegna Landhelgisgæslunnar. Ert þú með það mál á takteinum?
„Ég vil kannski lítið tjá mig um það akkúrat núna. Þetta er náttúrulega á borði Landhelgisgæslunnar og dómsmálaráðuneytisins, en ég hef engu að síður sagt að við þurfum að skoða hvernig við getum eflt gæsluna. Hluti af því kann að vera einmitt þessi staðsetning, hvar hún er með sína kjarnastarfsemi þegar kemur að hafinu og höfnum.
En eins og þú heyrir er þetta ekki komið það langt að við getum sagt alveg ótvírætt hvernig þetta verður. Ég er fyrst og fremst að einblína á það hvernig við getum eflt okkar öryggi og varnir, og þessi frábæra undirskrift hér vegna Helguvíkur og olíubirgðastöðvanna er liður í því.“







