Framkvæmdirnar í Helguvík munu skapa um 100 störf og styrkja rekstur hafnarinnar
„Þessar framkvæmdir í Helguvíkumunu þýða heilmikila uppbyggingu á næstu árum sem mun skapa áætlað um 100 störf, bæði bein og óbein. Vonandi verða sem flestir þeirra sem koma til með að starfa við þessar framkvæmdir búsettir hér, þannig að það skili tekjum í bæjarsjóð,“ sagði Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ að lokinni undirskrift samnings um 390 metra langan viðlegukant í Helguvík sem NATÓ mun kosta.
Kjartan segir að aukin skipaumferð muni skila umfangi og tekjum hjá Reykjaneshöfn. „Gert er ráð fyrir að við getum nýtt höfnina eða þennan hafnargarð þegar herskip eru ekki hér, og þannig getur þetta skapað okkur frekari tekjur líka. Helguvíkurhöfn er nefnilega að verða mjög þétt setin, það er stutt í að hún verði full af skipaumferð, og þessi framkvæmd gefur okkur möguleika á að nýta höfnina enn betur.
Þannig að þetta eru virkilega góðar fréttir, þessi undirskrift?
„Já, þetta eru mjög góðar fréttir. Nálægðin hér við flugvöllinn spilar líka inn í, og við vitum ekki enn nákvæmlega hvernig þetta þróast. Kannski verða hér áhafnaskipti á þessum skipum að einhverju leyti – og þá er stutt á völlinn. Þetta er allt í þróun. Varnarumsvif eru að aukast og Reykjanesbær og Suðurnesin eru næsti bær við. Þetta hefur mikil áhrif.“
Þið hafið líka mikla reynslu af því að vera í nágrenni við herstöð og varnarmannvirki, skiptir það máli?
„Já, við höfum mikla reynslu af því og látum það ekki trufla okkur mikið þó að hér fari þotur eða skip um svæðið. Ég held að það sé hluti af ástæðunni fyrir því að við urðum fyrir valinu. Það voru margir staðir skoðaðir, skilst mér. Þetta var niðurstaðan og við fögnum því. Það er líka stutt á miðin.“
Þessi stóra framkvæmd í Helguvík er tengd Reykjaneshöfn og það hefur verið löng saga um erfiðan rekstur hafnarinnar. Er þetta allt á réttri leið núna?
„Já, sem betur fer. Það er rétt að það hafa verið mörg fyrirtæki sem hafa komið og farið í Helguvík og vonandi fer þeim „slysum“ að fækka núna. Það verður talsvert umleikis í kringum starfsemi Atlantshafsbandalagsins hér og við bindum vonir við að það verði eitt af þeim hjólum sem við þurfum til að snúa Helguvík í það sem hún átti upphaflega að vera – það er að segja, vannýttur kostur sem verður loksins nýttur.“
Er alltaf eftirspurn eftir iðnaðarsvæðum í Helguvík?
„Já, það hefur verið talsvert mikið spurt og byggt upp. Við erum með ákveðna stefnu um að á því landi sem er næst höfninni eigi einungis að vera hafnsækin starfsemi. Þegar aðeins lengra dregur frá höfninni erum við að úthluta lóðum fyrir annars konar starfsemi sem þarf ekki hafnaraðstöðu. Það er verið að byggja mikið og margar lóðaúthlutanir eru bæði búnar og í farvatninu.“
Þannig að þetta er stór dagur – þessi undirskrift ?
„Já, þetta er skemmtilegur áfangi. Við erum búin að vera að vinna í þessu í milli sex og sjö ár núna, og það er bara mjög gott að þetta sé komið á þennan stað.“







