ReykjanesOptikk
ReykjanesOptikk

Fréttir

Helguvík verður birgðastöð skipaolíu fyrir NATÓ á Íslandi - auknir möguleikar fyrir höfnina
Halldór Karl, hafnarstjóri með Kjartani Má, bæjarstjóra og Þorgerði Katrínu, utanríkisráðherra í undirskrift um framkvæmdirnar í Helguvík. VF/pket.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
föstudaginn 28. nóvember 2025 kl. 10:23

Helguvík verður birgðastöð skipaolíu fyrir NATÓ á Íslandi - auknir möguleikar fyrir höfnina

„Þetta er verkefni sem hefur verið í undirbúningi í nokkur ár og nú sjáum við loksins fyrir endann á þeirri sögu. Framkvæmdasagan er að hefjast,“ segir Halldór K. Hermannsson, hafnarstjóri Reykjaneshafnar eftir undirritun samnings um byggingu viðlegukants í Helguvík.


„Með þessari undirritun er búið að samþykkja að fara í þessa framkvæmd í Helguvík sem samstarfsverkefni milli utanríkisráðuneytisins og samfélagsins hér á Suðurnesjum, með fjármögnun frá Atlantshafsbandalaginu.
Næsta skref er útboð á undirbúningsgögnum fyrir útboð á verklegum framkvæmdum, og það tekur nokkra mánuði. Í framhaldi verður farið í útboð á verklegum framkvæmdum og má búast við að þær taki tvö til þrjú ár. Þannig að næstu þrjú til fjögur árin verða í vinnslu, og þá sjáum við fyrir endann og notkun hefst,“ segir Halldór Karl.

Hvaða þýðingu hefur þetta fyrir Reykjaneshöfn?
„Við gerum ráð fyrir að þegar framkvæmdum lýkur verði umsjón og umsýsla með þessum viðlegukanti, sem byggður verður í höfninni, á hendi Reykjaneshafnar. Það þýðir að hægt verður að nýta hann að hluta til undir borgaraleg not, sem eykur afkastagetu hafnarinnar gagnvart viðskiptavinum sínum.“

Nýsprautun vetrardekk
Nýsprautun vetrardekk

Fyrir hvað er þessi viðlegukantur sérstaklega hugsaður fyrir?
„Grunnurinn er að byggja upp aðstöðu fyrir birgðastöð skipaolíu á Íslandi. Sú aðstaða er af skornum skammti í dag. Í ljósi vályndis í heimsmálum vill Atlantshafsbandalagið tryggja efnahagslega stöðu sína hér á Íslandi, meðal annars með því að eiga ákveðnar varabirgðir.
En það er ekki nóg að eiga varabirgðir – það þarf líka að vera notkun á þeim. Þannig má búast við að þetta verði mjög hagkvæmt fyrir þjóðfélagið að hafa þessa eldsneytisbirgðastöð þarna í framtíðinni og nýta það eldsneyti sem þar er.“

Mun þetta hafa atvinnulega þýðingu fyrir samfélagið?
„Þessi 390 metra viðlegukantur skapar augljóslega möguleika á ýmissi skipaumferð, og henni fylgja störf og uppbygging. Hvað nákvæmlega verður er ómögulegt að segja núna, en tækifærið er til staðar og ég hef trú á því að menn sjái það þegar þetta fer að taka á sig mynd.“

Hvað áttu við þegar þú talar um borgaraleg not?
„Ég á við að við getum verið með almenna fraktflutninga um höfnina samhliða því að sinna þessu hlutverki sem tengist varnarmálunum. Það er hugsunin.“

Þannig að þetta hefur sterk áhrif á rekstur hafnarinnar?
„Vissulega. Við erum með ýmislegt í pípunum og horfum til þess að stækka þann hluta sem er norðan megin í höfninni um um 100 metra á næstu þremur árum, og svo bætast við þessir 390 metrar. Þá verðum við komin með viðlegukanta upp á rúma 700 metra á Helguvíkursvæðinu, sem gefur mikla möguleika.“

Er þá ljóst að umferð um Helguvík muni aukast mikið á næstu árum, ekki síst þegar þessum framkvæmdum lýkur?
„Vissulega. Við erum þegar farin að verða vör við það í dag, þótt starfsemin sé ekki enn komin á það stig sem er núna að byggjast upp. Það hefur orðið mikil aukning á skipakomum í Helguvík á þessu ári og ég sé ekki annað en að það haldi áfram og bætist við á komandi árum, og það nokkuð hratt.“

Dubliner
Dubliner