Glæsilegur árangur á Haustmóti yngri flokka fimleika
Haustmót yngri flokka fór fram um síðustu helgi og tók Keflavík þátt með fimm lið - samtals 49 keppendur. Keflavík tefldi fram þremur stúlkna liðum í 4. flokki, auk tveggja drengjaliða, einu í KKY og einu í KKE.
Sérstaklega gaman er að segja frá því að þetta var í fyrsta skipti sem Keflavík sendir lið til keppni í KKE, og stóðu strákarnir sig frábærlega, segir í frétt frá Fimleikadeild Keflavíkur.
Að öllu samanlögðu var þetta stórkostleg helgi fyrir alla keppendur. Liðin komu ótrúlega vel undirbúin á sitt fyrsta mót tímabilsins og ríkti mikil gleði, samheldni og keppnisandi í hópnum.
Framúrskarandi frammistaða í 4. flokki
- 4. flokkur 1 átti ótrúlegt mót og hafnaði í 1. sæti af 39 liðum, auk þess að sigra öll áhöld.
- 4. flokkur 2 sýndi flottan og stöðugan árangur og endaði í 11. sæti.
- 4. flokkur 3, sem er ári yngri en hin liðin, stóð sig afar vel, hafnaði í 21. sæti og náði 5. sæti á dýnu.
Drengjaliðin áfram í sókn
- KKY, sem sigraði allt síðasta tímabil, hélt áfram á sinni sigurgöngu og endaði í 1. sæti í fjölþraut og á gólfi, auk 2. sætis á dýnu og trampólíni.
- Nýja liðið KKE lét einnig vel til sín taka og tryggði sér 2. sætið á mótinu.









