NÆRMYND: Margir sem ég hef unnið með eru mínar fyrirmyndir
Sigurbjörg Róbertsdóttir hefur umgengist skólabörn nær alla sína starfsævi en hún er skólastjóri Akurskóla sem fagnar 20 ára afmæli um þessar mundir. Við vildum vita meira um þessa skólakonu og í nærmyndinni kemur ýmislegt áhugavert í ljós um Sibbu.
Árgangur: 1969
Búseta: Reykjanesbær, Keflavík.
Hverra manna ertu og hvar uppalin(n)? Fædd og uppalin í Njarðvík og tel mig alltaf vera Njarðvíking. Foreldrar mínir Róbert og Hafdís í Bústoð.
Starf: Skólastjóri Akurskóla.
Hvað er í deiglunni: Næst á dagskrá er utanlandsferð til Florida til að heimsækja foreldra mína sem dvelja í USA 6 mánuði á ári og spila smá golf. Svo bara jólin og notalegheit.
Hvernig nemandi varstu? Ég held að ég hafi verið góður og stilltur nemandi þó að okkur í árgangi 69 í Njarðvíkurskóla hafi stundum dottið einhver vitleysa í hug og ég tekið þátt í einstaka fíflaskap.
Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum? Ætli það sé ekki kjóllinn og svo að ég mátti ekki nota maskara, mér fannst það ekki gott.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? Ég leiddi aldrei hugann að því svo ég muni. Það að verða kennari gerðist eiginlega bara eftir að ég útskrifaðist sem stúdent og fór að vinna sem leiðbeinandi í Gerðaskóla. Þá var ekki aftur snúið. Það er svo skemmtilegt starf að kenna þó að mér finnist enn meira gaman að vera skólastjóri.
Áttu einhverja sérstaka fyrirmynd? Svo margir sem ég hef unnið með sem hafa verið mínar fyrirmyndir og líka bara í lífinu sjálfu. Maður lærir eitthvað af öllu því fólki sem maður umgengst og rekst á á lífsins leið.
Hvert var uppáhaldsleikfangið þitt þegar þú varst krakki? Ætli það hafi ekki verið Barbie-dótið okkar systra.
Besti ilmurinn? Mugler Angel, bleiki.
Á hvernig bíl lærðir þú fyrir bílprófið? Guð minn góður! Það eru fjörutíu ár síðan. Mig minnir að hann hafi verið vínrauður. Annað man ég ekki.
Á hvaða bíl fórstu fyrsta rúntinn eftir prófið og með hverjum? Sennilega VW sem hafði verið nýkeyptur handa okkur systrum og ég fór örugglega með vinkonum mínum úr Njarðvíkurskóla.
Hvernig slakarðu á? Að grípa í prjónana er góð afslöppun og núvitund.
Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu? Raunveruleikaþáttum.
Uppáhaldsvefsíðan? akurskoli.is
Hvað heldurðu að skjátími þinn sé mikill á hverjum degi að jafnaði? Alltof mikill, vinn við tölvu og þetta eru örugglega 6-10 tímar á dag fyrir framan skjá.
Besta bíómyndin? Ég get horft á Notting Hill aftur og aftur.
Hvaða íþróttamanni hefurðu mestar mætur á? Ég fylgist með flestum íþróttum og ætli Björgvin Páll sé ekki í pínu uppáhaldi.
Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili? Allt, þar sem ég geri allt sjálf.
Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu? Kjúklingaréttirnir mínir. Þeir klikka ekki.
Hættulegasta helgarnammið? Lakkrís.
Hvernig er eggið best? Linsoðið.
Hvað fer mest í taugarnar á þér? Að vera andvaka.
Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? Leti.
Uppáhalds málsháttur eða tilvitnun? Veldur hver á heldur.
Hver er elsta minningin sem þú átt? Þegar við systur vorum að leika okkur á Vatnsnesvegi 12 þar sem Bústoð var að opna árið 1975.
Þú vaknar einn morgun í líkama frægrar manneskju og þarft að dúsa þar einn dag. Hver værirðu til í að vera og hvað myndirðu gera? Trump og ég myndi segja af mér og fara að spila golf. Allt of mikið álag á þessum gamla manni og kominn tími til að hann setjist í helgan stein.
Hver er uppáhaldsbókin þín og rithöfundur? Ég er alæta á bókmenntir og hlusta mikið á skáldsögur og ævisögur. Finnst Yrsa, Ragnar og Arnaldur mjög góð.
Orð eða frasi sem þú notar mikið? Munið að þetta er eins og staðan er í dag (Mikilvægt er að endurtaka þennan frasa oft í síbreytilegu skólastarfi).
Hvaða þremur persónum vildirðu bjóða í draumakvöldverð? Ætli maður myndi ekki vilja hitta einhverja sem eru farnir? Ég myndi sennilega vilja borða með Röggu Ragg og Kristínu Gunnars sem ég vann með í Heiðarskóla og voru góðar vinkonur mínar. Ég myndi síðan bjóða Bryndísi Guðmundsdóttur vinkonu minni með. Það yrði skemmtilegt matarboð þar sem við myndum rifja upp skemmtilegar minningar.
Ef þú gætir farið til baka í tímann, hvert færirðu? Verslunarmannahelgin 1984 í Þjórsárdal. Skemmtileg helgi en ég týndi bakpokanum mínum.
Hver væri titillinn á ævisögu þinni? Hvert skal halda? Ein utanlandsferðin enn!







