Atnorth
Atnorth

Mannlíf

Tölum um tónlist
Laugardagur 19. júlí 2025 kl. 06:05

Tölum um tónlist

Nokkrum sinnum á ári förum við í skrúðgöngur og fögnum ýmsum viðburðum. Við kveðjum jólin 6. janúar, þrett-ándinn, við fögnum sumardeginum fyrsta í lok apríl og svo stuttu seinna er það baráttugangan 1.maí og auðvitað er það þjóðhátíðardagurinn okkar 17. júní með tilheyrandi dagskrá í skrúðgarðinum okkar.

Þetta endar svo á árgangagöngunni á Ljósanótt þar sem allir aldurshópar ganga niður Hafnargötuna og sameinast í lokin á túninu við Ægisgötuna með frábæru tónlistarfólki. Það sem þessar göngur eiga allar sameiginlegt er að Lúðrasveit Tónlistarskóla Reykjanesbæjar er fremst í öllum þessum göngum og spilar hressa og skemmtilega tónlist með dúndrandi trommuslátt þar sem hver einstaklingur þrammar í takt. Þetta er ein af leyndum perlum Reykjanesbæjar, lúðrasveitin. Hugsið ykkur að labba í göngu og engin tónlist, vera í skrúðgarðinum 17. júní og engin tónlist, Ljósanótt og engin tónlist... mjög skrýtið... er það ekki??

Lúðrasveit Tónlistarskólans fór í magnaða ferð til Calella á Spáni í júní. Ég fékk þann heiður að vera fararstjóri í þessum hóp þar sem barnið mitt spilar á slagverk. 32 börn á aldrinum 11 ára til 21 árs, þrír stjórnendur og sex fararstjórar og aðrar fjölskyldur sem fylgdu þessum flotta hóp. Á þessum tíma er hátíð í bænum sem heitir „Calella Folk Festival” og er það hátíð tónlistar og skemmtunar. Lúðrasveitin spilaði á þremur kvöldum á þessari hátíð, föstudag, laugardag og sunnudag. Unga tónlistarfólkið okkar byrjaði á skrúðgöngu á föstudeginum. Það er alltaf krefjandi að spila í skrúðgöngum á Íslandi þar sem veðrið leikur ekki alltaf við okkur. Rigning, rok og jafnvel slydda hefur gert vart við sig á sumardaginn fyrsta. En það gerðist ekki í Calella. Yfir 30° hiti og ganga í skrúðgöngu um þröngar spænskar götur og spila tónlist er mun erfiðara en við bjuggumst við. En þrátt fyrir hitann, svitann og gönguna þá kláraði lúðrasveitin gönguna með meistarabrag og sendi skilaboð til heimamanna... íslenska tónlist þar sem Spánverjar dilluðu sér og höfðu gaman af. Seinna um kvöldið spilaði sveitin fyrir framan stóran hóp af heimamönnum. Á laugardagskvöldinu spilaði sveitin einnig við góðar undirtektir og það gerðu hún svo aftur á sunnudagskvöldinu. Fagmennskan hjá lúðrasveitinni okkar var 100%.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Lúðrasveitin á ekki að vera falin perla, þessi spilamennska hjá þeim sýndi það og sannaði að þau eiga heima á stóra sviðinu. Það er ekki nóg að tala um börnin í lúðrasveitinni, við verðum einnig að tala um þá stjórnendur sem gera þessa sveit svona flotta. Allt mitt hrós og aðdáun fer til Ragnheiðar Eirar, Þórörnu Salóme og Magnúsar Más sem hafa greinilega lyft grettistaki í starfi lúðrasveitarinnar og það sést á samspili milli stjórnenda og barnanna. Það er óaðfinnanlegt.

Takk fyrir mig og von um áframhaldandi lúðrasveitartónlist í framtíðinni... tölum um tónlist.             

Sævar Jóhannsson

Greinarhöfundur er faðir barns í lúðrasveitinni og var fararstjóri í ferðinni