Bilakjarninn
Bilakjarninn

Mannlíf

„Grindavík mun byggjast upp fyrr en síðar“
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 19. júlí 2025 kl. 06:10

„Grindavík mun byggjast upp fyrr en síðar“

Hjónin Guðmundur Sverrir Ólafsson og Guðmunda Jónsdóttir eru bjartsýn á framtíð Grindavíkur en segja ferlið lyginni líkast og hafi reynt á fólk

Hjónin eru á meðal fjögur þúsund Grindvíkinga sem þurftu að yfirgefa bæinn sinn í nóvember 2023. Þau voru heppin, fengu strax inni hjá skyldfólki Guðmundu í Reykjanesbæ og voru á meðal fjölmargra Grindvíkinga sem fluttu í Pósthússtræti 7 í Reykjanesbæ. Þau fara mjög fögrum orðum um Reykjanesbæ og fólkið sem þau búa með í Pósthússtrætinu en það breytti því ekki að þau hafa saknað Grindavíkur allar götur síðan 2023 og voru snögg að stökkva á hollvinasamning Þórkötlu og hafa gist í Grindavík síðan það var leyft 28. maí.
Hjónin með öllum börnum, barnabörnum og tengdabörnum.

Guðmunda segir að mikið þurfi að gerast svo þau flytji ekki aftur til Grindavíkur.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

„Við vorum heppin, fengum strax inni í húsi frænda míns og vorum þar þangað til við gátum flutt í Pósthússtrætið í júní í fyrra. Við tryggðum okkur þetta húsnæði um leið og það bauðst en þá var það í byggingu og var ekki alveg tilbúið þegar við fluttum inn í júní, bílakjallarinn var t.d. ekki tilbúinn. Það er yndislegt að búa þarna með öllum þessum Grindvíkingum, okkur líður stundum eins og við séum í búðinni í Grindavík og allt hitt fólkið í blokkinni er yndislegt. Það fer mjög vel um okkur þarna en samt vantar eitthvað upp á svo okkur liði eins vel og í Grindavík, hugur okkar hefur allan tímann verið í gamla bænum okkar. Við höfum haldið tengingu við Grindavík síðan við seldum og þegar við gerðum hollvinasamninginn 12. desember í fyrra þá höfum við haldið tengingu við gamla heimilið, ég bakaði t.d. fyrir jólin heima í Grindavík og þegar Þórkatla gaf grænt ljós á gistingu í Grindavík 28. maí, vorum við ekki lengi að ganga að þeim samningi. Ég ætlaði varla að trúa hversu vel og lengi ég svaf fyrstu nóttina, það var yndislegt að vakna við fuglasönginn og tilfinningin yfir að vera komin aftur heim var guðdómleg,“ segir Gumma eins og hún er jafnan kölluð.

Garður hjónanna er einkar snyrtilegur.
Ekki til í kerfinu

Hjónin hafa ekkert nema gott um Þórkötlu að segja í dag en þau lentu í miklu brasi við söluna á fasteign sinni. Gummi rifjaði það upp.

„Þegar við seldum þá hökuðum við bæði við forkaups- og forleiguréttinn en það reyndi aldrei á það síðarnefnda því allt í einu var ekki í boði að leigja. Við vorum svo sem ekki þá á leiðinni að fara leigja húsið til baka til að búa í því og þegar kom að því ganga frá sölunni en við þurftum á þeim peningi að halda til að kaupa íbúðina í Pósthússtrætinu, þá lentum við á vegg. Húsið okkar var byggt árið 1950 og við vorum búin að búa í því í 45 ár. Það voru um 70 heimili sem lentu utan kerfis, þ.e. eftir að skráning í tölvukerfi bæjarins var hafin árið 1981. Þeir Grindvíkingar sem höfðu búið í húsnæði sínu fyrir þann tíma og að þeim tíma sem kom að sölu til Þórkötlu, lentu í því að þeir voru bara ekki til, þetta var týpískt „computer says no.“ Við hringdum í Þjóðskrá og spurðum hver hefðu búið á Ásabraut 1 í Grindavík  þann 10. nóvember 2023 og sem betur fer fengum við þau svör að það værum við. Ég bað um að fá þetta sent í tölvupósti en það var ekki hægt, við þurftum að mæta á staðinn og borga 3.500 kr fyrir að fá þessar upplýsingar á prenti. Það var alveg sama hvað við reyndum, við fengum engin svör frá Þórkötlu og það var ekki fyrr en sonur okkar hafði samband við alþingismann í okkar kjördæmi, Vilhjálm Árnason, sem hreyfing komst á málið, nokkrum mánuðum eftir að stappið byrjaði. Villi hefur staðið sig frábærlega fyrir okkur Grindvíkinga og hefði ekki verið fyrir hans liðssinni þá værum við líklega ekki í húsnæðinu okkar í dag. Hugsa sér, ofan í allt áfallið sem þetta hefur verið fyrir alla Grindvíkinga, að þurfa þá líka að standa í svona stappi við yfirvöld. Villi á svo sannarlega miklar þakkir skyldar frá öllum Grindvíkingum og eins viljum við minnast á þátt Hjálmars Hallgrímssonar, hann hefur staðið sig frábærlega í málefnum okkar Grindvíkinga. Ég vil líka taka skýrt fram að starfsfólk Þórkötlu hefur reynst okkur mjög vel síðan þetta leiðindarmál kom upp, framkvæmdastjórinn Örn Viðar vildi allt fyrir okkur gera og var mjög umhugað um að leysa þessi mál og sem betur fer tókst það og allir sem voru í þessari stöðu fengu sín mál leyst. Það hefur ekki gengið að leysa úr málum allra atvinnurekenda og það er auðvitað miður en það er ekki eins einfalt mál eins og að leysa úr húsnæðisvanda einstaklinga,“ segir Guðmundur.

Grindavík mun blómstra

Hjónin ætla sér að vera í Grindavík eins og útlitið er í dag og eru bjartsýn á nánustu framtíð bæjarins.

„Þetta ferli allt hefur verið lygi líkast og hefur reynt mismikið á fólk. Við höfum mestar áhyggjur af blessuðum börnunum en það er alveg ljóst í okkar huga að þetta hefur reynt á alla. Það var auðvitað áfall að samfélagið skyldi tvístrast svona í allar áttir en að bæta glímu við yfirvöld og Þórkötlu inn í jöfnuna er ótrúlegt að okkar mati. Að Grindvíkingar hafi þurft að mæta sérsveitarmönnum þegar okkur var hleypt inn í bæinn og máttum vera í fimm mínútur að sækja nauðsynjar, er eitthvað sem er óskiljanlegt! Það voru gerð gríðarleg mistök að okkar mati í framkvæmdinni á húsnæðisuppkaupunum, þetta úrræði ríkisstjórnarinnar varðandi uppkaup í gegnum fasteignafélagið Þórkötlu var frábært en allt eftir það var mjög illa unnið en sem betur fer er eins og fólk hafi vaknað til lífsins. En að láta Grindvíkinga tæma húsin eins og um venjuleg fasteignaviðskipti væri að ræða, voru rosaleg mistök, mörg hús lágu síðan undir skemmdum því það var enginn umgangur og umsjón, þ.a.l. engin loftun eða eftirlit á húsunum en við breytum ekki fortíðinni og verðum bara að horfa fram á veginn.

Við höfum fulla trú á að Grindavík muni blómstra á ný og í raun vitum við það. Það eru svo margir Grindvíkingar sem sakna bæjarins og samfélagsins, það er erfitt að slíta taugina svo við erum sannfærð um að fyrr en síðar muni Grindavík blómstra á ný. Við hefðum viljað að yfirvöld væru byrjuð á meiri uppbyggingu í Grindavík, það þarf að klára að laga allar þessar sprungur og ekki eftir neinu að bíða varðandi það. Þær sprunguviðgerðir sem hafa farið fram, hafa allar haldið og því ekkert sem á að aftra okkur í að klára þetta. Úr því sem komið er hefst ekki skólahald í haust en því fyrr sem það verður gefið út, vonandi eigi síðar en næsta haust, því betra. Auðvitað erum við hlutdræg en við teljum að samfélagið hafi verið mjög gott og fá samfélög jafnist á við Grindavík, þetta er einstakt fólk upp til hópa sem bjó hér og vonandi munu flestir snúa til baka en auðvitað verður einhver breyting. Margt fjölskyldufólk er búið að skjóta rótum annars staðar og hugsanlega hentar ekki sumum fjölskyldum að snúa til baka, það verða allir að fá að hafa sína hentisemi með það. Grindavík mun byggjast upp aftur, atvinnulífið er það sterkt hér, með frábæra höfn, nálægt alþjóða flugvelli og á meðan að atvinnustig er hátt, er grundvöllur fyrir uppbyggingu öflugs samfélags. Þetta á við í Grindavík og því fyrr sem við hefjumst handa, því betra. Við hjónin ætlum hið minnsta ekki að láta okkar eftir liggja í að byggja bæinn okkar upp, eins og staðan er núna erum við komin til að vera og það mun þurfa að draga okkur úr burtu frá Grindavík. Hér ætlum við að eyða síðustu æviárum okkar og hlökkum mikið til þegar allt mun iða hér aftur af lífi,“ sögðu hjónin að lokum.