Bako
Bako

Aðsent

Geðheilbrigðismál – það þarf aðgerðir, ekki innantóm orð
Þriðjudagur 7. október 2025 kl. 10:27

Geðheilbrigðismál – það þarf aðgerðir, ekki innantóm orð

Við stöndum frammi fyrir risastóru samfélagslegu máli: stöðu geðheilbrigðismála á Íslandi. Ætlum við að halda áfram að benda hvert á annað – sveitarfélögin, heilbrigðiskerfið, fyrri ríkisstjórnir, núverandi ríkisstjórn, hinn og þennan ráðherra eða ráðamann– eða ætlum við að taka höndum saman og skapa raunverulega þjónustu sem bjargar mannslífum?

Fréttir af sjálfsvígum, alvarlegri vanlíðan, áhættuhegðun og ofbeldisbrotum, sem rekja má að miklu leyti til vanrækslu á geðheilbrigðisþjónustu og úrræðaleysi, eru að verða daglegt brauð á samfélagsmiðlum. Rannsóknir hafa sýnt og sannað að skortur á geðheilbrigðisþjónustu og sálfræðiþjónustu, ónógur stuðningur í skólum og alltof langir biðlistar hafa afdrifaríkar afleiðingar.

Bílakjarninn frá sept. 25
Bílakjarninn frá sept. 25

Árið 2023 voru 47 sjálfsvíg á Íslandi, sem jafngildir um 12,4 á hverja 100.000 íbúa. Fyrstu sex mánuði ársins 2024 voru skráð 22 sjálfsvíg. Þetta eru ekki bara tölur – þetta eru einstaklingar, fjölskyldur og samfélög í sorg.

Staðan hjá börnum er sérstaklega sláandi: Í ágúst 2024 biðu 2.020 börn eftir þjónustu hjá Geðheilsumiðstöð barna, samanborið við 738 börn í desember 2021. Tilvísanir hafa nær tvöfaldast á tveimur árum og meðalbiðtími er allt að 12–24 mánuðir. Á þessum tíma gætu börnin verið án nauðsynlegrar hjálpar. Starfsemi geðdeilda og sú vinna sem þar fer fram er oftast góð, en biðin og sá fjölþætti vandi sem við stöndum frammi fyrir kallar á fjölbreyttari úrræði sem geðdeildir hafa því miður ekki upp á að bjóða í dag.

Ísland kallar sig velferðarsamfélag – þá verðum við líka að haga okkur sem slíkt.      

    Það þarf að:

  • Fjármagna aðgerðir sem stytta biðlista.
  • Tryggja snemmtæka íhlutun og sálfræðiaðstoð í skólum.
  • Auka aðgengi að þjónustu óháð efnahag eða búsetu.

Ísland stærir sig af því að vera velferðarsamfélag. Förum að haga okkur þannig og gera ráðstafanir til þess að geta staðið undir því. Það er svo mikilvægt að vera með snemmtækar íhlutanir, að geta brugðist við áður en það er orðið of seint, áður en einstaklingurinn er kominn of langt, á verri stað sem getur haft svo afdrifaríkar afleiðingar á einstaklinginn, fjölskyldu hans og samfélagið. Skólakerfið hefur öskrað á hjálp, velferðarkerfið hefur öskrað á hjálp, heilbrigðiskerfið hefur öskrað á hjálp, foreldrar hafa öskrað á hjálp, börn, ungmenni og fullorðnir hafa öskrað á hjálp.

Þingsályktun um geðheilbrigðisþjónustu til 2030 var samþykkt árið 2022 og setur fram góða framtíðarsýn. En stefnur einar og sér bjarga engum – það þarf raunverulegt plan, fjármagn og framkvæmd.

Við getum breytt þessu. Aðgerðir í dag kosta minna en aðgerðaleysi á morgun. Stöndum saman og tryggjum öllum aðgang að nauðsynlegri geðheilbrigðisþjónustu.

Alþjóðlegi geðheilbrigðisdagurinn er haldinn 10.október ár hvert og er hann tileinkaður vitund, fræðslu og umræðu um geðheilbrigði um allan heim. Ég vill hvetja alla til að klæðast grænu þennan dag sem táknar von, endurnýjun, jafnvægi, stuðning og samstöðu.

Díana Hilmarsdóttir 

forstöðumaður Bjargarinnar geðræktarmiðstöðvar Suðurnesja og bæjarfulltrúi Framsóknar í Reykjanesbæ.

Safnahelgi 2025
Safnahelgi 2025