Rauði krossinn á Íslandi mun á næstu vikum og mánuðum bjóða Grindvíkingum á öllum aldri upp á mikið úrval námskeiða, vinnustofa og viðburða sem þjónustu- og menntunarfyrirtækið KVAN hefur hannað sérstaklega með þarfir fólks úr Grindavík í huga. Námskeiðin verða bæði fræðandi og skemmtileg og hafa það að markmiði að efla þátttakendur í að takast á við afleiðingar áfalla, auka seiglu og stuðla að sjálfstæði og virkni í daglegu lífi.
Þetta umfangsmikla verkefni, sem ber heitið „Með þér – Í krafti styðjandi samfélags“, er unnið með stuðningi frá fyrirtækinu Rio Tinto og í samráði við Grindavíkurbæ. Það byggir á aðferðafræði Rauða krossins, sem hefur verið beitt víða um heim eftir hamfarir og áföll, og hefur sýnt fram á árangur í að efla sjálfstraust, bjartsýni og lífsgæði.
„Með verkefninu vill Rauði krossinn styðja enn frekar við Grindvíkinga og byggja upp seiglu þeirra – með Grindvíkingum, fyrir Grindvíkinga – svo hver og einn geti fundið sig í nýjum veruleika,“ segir Jasmina Vajzovic Crnac, verkefnastjóri Viðnámsþrótts Suðurnesja hjá Rauða krossinum.
Opnir viðburðir á næstunni
KVAN stendur fyrir opnunarviðburði verkefnisins 29. október næstkomandi sem verður nánar auglýstur síðar. Öllum Grindvíkingum er þá boðið að koma saman og eiga huggulega stund með tónlist, afþreyingu fyrir börn og kynningu á verkefninu. Í kjölfarið verður Grindvíkingum boðið til opinna hugmyndasmiðja um þarfir og væntingar sínar til verkefnisins.
Jasmina hvetur Grindvíkinga eindregið til að mæta á þessa viðburði og láta rödd sína heyrast við mótun verkefnisins.
„Við hjá KVAN trúum því að raunveruleg valdefling felist í því að gefa fólki tækifæri til að finna eigin styrkleika og byggja ofan á þá,“ segir Bogi Hallgrímsson framkvæmdastjóri KVAN. „Með þessu verkefni viljum við ekki einungis styðja Grindvíkinga í bataferlinu eftir áföll, heldur einnig hvetja hvern og einn til að efla sjálfstraust sitt og finna nýjar leiðir til að blómstra.“
Dæmi um áherslur á námskeiðunum
Í verkefninu verður boðið upp á viðburði og þjálfun sem henta mismunandi aldurshópum og ólíkum bakgrunni fólks. Þannig verða t.d. námskeið fyrir börn sem verða blanda af leikjum og uppbyggjandi æfingum sem miða að því að auka færni þeirra í samskiptum. Einnig munu þau læra um mikilvægi samvinnu og umburðarlyndis, ásamt því hvernig hægt sé að verða jákvæður leiðtogi. Unglingum býðst að sækja námskeið þar sem m.a. verða kenndar leiðir til að takast á við aukinn hraða, álag og kröfur og þeim færð verkfæri til að auka sjálfstraust og hugrekki til að þora að standa á eigin skoðunum. Á námskeiðum fyrir fullorðna verður áhersla m.a. lögð á að efla hæfni og styrkleika til að takast á við verkefni á vinnumarkaði og í einkalífi og kennd aðferðafræði sem að hjálpar fólki að ná betri færni í samskiptum.
Verkefnið skiptist í þrjá áfanga: haust 2025, vor 2026 og sumar 2026. Námskeiðin verða í boði bæði í Reykjanesbæ og á höfuðborgarsvæðinu.