Hafna umsókn um íbúð í iðnaðarbili á Framnesvegi
Byggingarfulltrúi Reykjanesbæjar hafnaði nýlegai umsókn um að breyta iðnaðarrými við Framnesveg 19A í íbúð og bílgeymslu. Breytingin samræmist ekki aðalskipulagi bæjarins þar sem gert er ráð fyrir heildarendurskipulagningu á Vatnsnesi með blandaðri byggð atvinnu, þjónustu og íbúða á efri hæðum.
Samkvæmt aðalskipulagi er Vatnsnes talið eitt áhugaverðasta uppbyggingarsvæði bæjarins. Þar er gert ráð fyrir fjölbýlishúsum í þremur til fimm hæðum, fjölbreyttri íbúðagerð og þjónustu á jarðhæðum. Þá á bílastæðum að vera komið fyrir neðanjarðar að hluta.
Skipulagið horfir til þess að byggðin á Vatnsnesi verði kennileiti bæði frá sjó og landi og að ásýnd svæðisins endurspegli samspil atvinnustarfsemi og íbúðar. Umsóknin um íbúð í iðnaðarbili féll því utan þeirra áforma og var hafnað.