Bragi Guðmundsson - Báruklöpp
Bragi Guðmundsson - Báruklöpp

Viðskipti

Spennandi breytingar á Brons
Föstudagur 10. október 2025 kl. 09:55

Spennandi breytingar á Brons

Magnús Ólafsson, nýr rekstrarstjóri, er eldri en tvæ vetur í bransanum

„Ég ætla að gera Brons að flottasta skemmti-, sport-, viðburða- og veitingastað Íslands,“ segir Magnús Ólafsson, nýr rekstrarstjóri Brons, sem hefur nýlega tekið við stjórnartaumunum og er þegar byrjaður að koma sínu handbragði á staðinn.

Magnús sér mikla möguleika í Brons og segir staðinn í raun vera eins og óslípaðan bronsstein, með fullt af tækifærum sem bíða þess að fá glansinn fram.

Bílakjarninn frá sept. 25
Bílakjarninn frá sept. 25

Vill setja sinn svip á Brons

„Brons verður þriggja ára í desember og vel hefur tekist til, en að mínu mati er hægt að gera enn betur,“ segir Magnús og bætir við að hann sjái „gullin tækifæri“ til að þróa staðinn áfram.

Hann segir að þó Brons hafi fengið sterka byrjun hafi það ekki enn náð að mótast alveg í sitt eigið sérkenni. „Staðurinn byrjaði sem afþreyingarstaður með pílu, karaoke og boltann í sjónvarpinu. Ári síðar bættist maturinn við, en ég vil nú leggja meiri áherslu á matarhlutann og þjónustuna,“ útskýrir hann.

„Vængirnir okkar eru frábærir, borgararnir góðir og ég mun bæta við ýmsum smáréttum fyrir lounge-rýmið. Ég held að margir geri sér ekki grein fyrir því hversu góður maturinn er hér á Brons.“

Magnús segir að mikil áhersla verði lögð á betri þjónustu og þægilegra andrúmsloft. „Við höfum hætt því að láta gesti sækja matinn í lúguna við eldhúsið. Nú fær fólk matinn beint á borðið og getur notið hans með góðum drykk,“ segir hann og brosir.

Steik og Bernaise á föstudögum

Magnús hefur þegar innleitt nokkrar breytingar og fleiri eru í vinnslu.

„Við erum nú með föstudaga sem steik- og Bernaise-daga, og það hefur fengið frábærar viðtökur. Þetta er hluti af því að byggja upp nýja og ferska stemningu,“ segir hann.

Hann bendir á að Suðurnesin séu krefjandi markaður, þar sem nálægðin við höfuðborgina spili stórt hlutverk. „En ég ætla að breyta því. Brons á að verða staður sem fólk kemur sérstaklega á, ekki bara einhver staður á leiðinni.“

Lounge fyrir ró og kjörinn vettvangur fyrir gleði

Brons býður upp á fjölbreytt rými: „Á efri hæðinni er frábært lounge þar sem fólk getur komið eftir vinnu, fengið sér drykk og slakað á við góða tónlist,“ segir Magnús.

„Á miðhæðinni er svo stemningin fyrir íþróttaaðdáendur, þar sem hægt er að horfa á allan boltann og kasta pílu. Neðst er karaoke-rýmið fyrir þá sem vilja sleppa sér og syngja af hjartans lyst.“

Að sögn Magnúsar verður áfram boðið upp á trúbadora á fimmtudagskvöldum og kraftmikla helgarstemningu. „Við ætlum að auglýsa viðburði mánuð fram í tímann svo fólk geti skipulagt sig. Brons á að vera staður sem þú getur alltaf treyst á að bjóði upp á eitthvað spennandi.“

„Töttugu o fem ár“ í bransanum

Magnús hefur áralanga reynslu úr veitinga- og skemmtanabransanum. „Ég útskrifaðist sem matreiðslumaður árið 1997 og bætti síðar við mig viðskiptamenntun árið 2008 með áherslu á sölu og markaðsmál,“ segir hann.

Hann rak veitingastaðinn Úrillu Górillu í miðbæ Reykjavíkur árið 2012, tók síðar við Library í Reykjanesbæ árið 2018, starfaði sem veitingastjóri á Hótel Keflavík og stýrði veitingarekstri á Konvin-hótelinu á Ásbrú. Nýverið sinnti hann starfi rekstrarstjóra veitingasviðs í Gróðurhúsinu/Greenhouse í Hveragerði og var jafnframt framkvæmdastjóri Kokteilstofu Kormáks og Skjaldar.

„Þegar mér bauðst svo að taka við Brons var ég ekki lengi að hugsa mig um. Þetta er einstakur staður með ótrúlega möguleika. Ég hef verið hér í tvo mánuði og mér líst bara betur og betur á þetta,“ segir hann.

Bottomless brunch og fjölbreytt viðburðadagskrá

Eitt af því sem Magnús hefur kynnt á Brons er svokallaður bottomless brunch.

„Þetta er vinsælt í höfuðborginni, og nú vil ég kynna það hér. Hópar geta komið á laugardögum kl. 12 og notið smárétta og drykkja til kl. 14. Það kostar 6.990 krónur fyrir matinn, en 10.980 krónur ef drykkir eru innifaldir — og þá má fá eins marga Mimosa, Prosecco, bjóra eða gosdrykki og hugurinn girnist,“ útskýrir hann.

Að sögn Magnúsar er þetta frábær leið til að byrja helgina, hvort sem um er að ræða saumaklúbb, vinahóp, steggjun eða gæsun. „Fólk veit bara ekki af þessu, þess vegna er ég hér í viðtali hjá Víkurfréttum,“ segir hann og hlær.

Viðburðir, tónlist og framtíðarplön

Magnús segir að Brons geti tekið við allt að 250 manns í stærri viðburðum eins og árshátíðum, afmælum, Oktoberfest og tónleikum.

„Við sýnum allan boltann, frá Evrópudeildinni til enska boltans í hádeginu um helgar. Við viljum að Brons verði samkomustaður Suðurnesjafólks þar sem alltaf er eitthvað í gangi,“ segir hann.

Stærstu tónlistarmenn landsins hafa þegar stigið á svið á Brons, meðal þeirra Birnir, Daniil, Sigga Beinteins og Hr. Hnetusmjör. „Við erum að vinna að nýju viðburðadagatali svo fólk geti séð allt sem framundan er,“ segir hann.

Breytingar í burðarliðnum

Magnús stefnir á frekari endurbætur á húsnæðinu. „Barinn er ekki á hentugum stað í dag, það myndast flöskuháls þegar mikið er að gera. Ég vil færa barinn nær setustofunni og breyta rýminu þannig að flæði verði betra,“ segir hann.

Þær breytingar verða þó ekki ráðist í strax. „Fyrst vil ég auka veltuna og styrkja reksturinn, en þegar við klárum þessar breytingar verður Brons einn flottasti og skemmtilegasti veitinga- og skemmtistaður landsins. Það er ég sannfærður um,“ segir Magnús að lokum.

Safnahelgi 2025
Safnahelgi 2025