Vara við þungri umferð í Reykjanesbæ á laugardag
Farþegum og starfsfólki Keflavíkurflugvallar verður beint um hjáleiðir í bænum vegna umfangsmikilla vegaframkvæmda.
Lögreglan á Suðurnesjum varar íbúa við mikilli umferð um Reykjanesbæ á laugardaginn, 11. október, þegar umfangsmiklar vegaframkvæmdir fara fram á Reykjanesbraut ofan við bæinn.
Samkvæmt tilkynningu lögreglunnar verður öllum farþegum og starfsfólki á leið til og frá Keflavíkurflugvelli beint um hjáleiðir í gegnum bæinn á tímabilinu frá klukkan 08:00 til 17:00.
Helstu hjáleiðir verða um Njarðarbraut, Þjóðbraut, Aðalgötu og Heiðarenda, og er stefnt að því að verktakar stigskipti framkvæmdunum eftir því sem unnt er.
Lögreglan biður íbúa um að sýna þolinmæði og stillingu á meðan á framkvæmdunum stendur.
„Umferð inni í bænum verður þung og hvetjum við íbúa að gefa sér örlítið meiri tíma en almennt gerist í okkar daglega lífi,“ segir í tilkynningu lögreglunnar.
Íbúar eru hvattir til að skipuleggja ferðir sínar vel og sýna tillitssemi í umferðinni meðan framkvæmdum stendur.