Birna Óladóttir - minning
Birna var vinur okkar Siggu og hún blómstraði af gleði og lífskrafti þegar við heimsóttum hana og Dadda í Grindavík með Hrekkjalómafélaginu. Þetta var á þeim tíma sem maður þurfti litla hvatningu til að skemmta sér og félagsskapurinn ekki með neina minnimáttarkennd í þeim málum. Það var boðið upp á humarsúpu, flatkökur með hangiketi og hressilegar veigar, allt heimalagað beint frá býli, enda féll henni aldrei verk úr hendi.
Þá söng Daddi fyrir okkur og lék af list lagið „Í dag er ég ríkur,“ og ég man hvað hún var stolt af sínum manni og undir fagnaðarlátum okkar stóð hún hnarreist og teinrétt í stofunni og brosti hringinn. Tónlistin var henni í blóð borin, eins og kvikar hreyfingar og fasið. Hún var einstök kona sem kunni þá list að leika við lífið og kitla glaðværðina sem tók þá völdin. En Birna varð alvarleg í bragði þegar einhverjum leið illa, hún var nösk á líðan fólks og mátti aldrei neitt aumt sjá. Þá beygði hún sig niður og rétti fram báðar hendur til aðstoðar, hún var heil og sönn hjálparhella í öllu sem hún gerði og tók sér fyrir hendur.
Birna var einstök kona, sem bar með sér þá lífsreynslu að hafa alist upp í stórum systkinahóp á stóru heimili í örlitlu einangruðu samfélagi Grímseyjar. Þar sem lífið snerist um að standa saman, lifa af. Hún var barn sem stóð í beituskúrnum og stokkaði línu og á fermingarárinu sat hún undir árum og reri til fiskjar með vinkonu sinni. Birna benti á miðin og vinkonan sagði, „gefðu mér stefnuna,“ upp frá því varð það máltækið þeirra, og þremur árum síðar réðst hún sem kokkur á vélbátinn Bergfoss. Það stóð aldrei neitt fyrir þessari stefnuföstu stelpu frá Sveinsstöðum.
Birna kallaði mig til og vildi fá mig til að skrifa bók um Willard bróður sinn og það varð úr og ég hóf verkið 1. október. En þú verður að drífa í því ef þú ætlar að tala við mig, ég fer að fara til Dadda sagði hún. Ég mætti og við náðum tveimur dögum áður en hún fór, en dýrmætar minningarnar eru skráðar. Við gáfum okkur tíma til að fara á tónleika Sigurbjörns sonar hennar og Arneyjar. Ég sat á næsta borði og fylgdist með hvað Birna bar sig vel þrátt fyrir þungan sjúkdóminn. Hún var að springa úr stolti, sat bein í baki og reisti sig, hallaði höfðinu og naut tónlistarinnar og hlusta á barnabarnið sitt syngja af hjartans list. Hún hefur verið farin að heyra í fjarska sama fallega tón móður sinnar sem áður ómuðu í stofunni heima.
Þegar ég kom í síðast sinn sat Arney við skörina, ég kvaddi líf sem ég elskaði og bað fyrir kveðju. Arney söng ömmu sína inn í draumalandið þar sem hann beið. Birna var tilbúin að hitta Dadda, hann hefur tekið á móti henni eins og þegar hann ungur maður kom í land úr róðri með Óla tengdaföður sínum. Þeir voru báðir verkaðir af neftóbaki en Daddi skolaði andlitið áður en hann kom heim, enda nýtrúlofaður maðurinn. Klárlega hefur hann tekið á móti sinni konu nýskolaður í framan og borið hana inn í nýjan heim og sungið með tilfæringum, „Í dag er ég ríkur.“
Við Sigga þökkum vináttuna og vottum fjölskyldu Birnu hjartans samúð.
Ásmundur Friðriksson.
Útför Birnu fer fram kl. 15 í dag í Grindavíkurkirkju og verður streymt hér