Einar sæmdur æðstu viðurkenningu UMFÍ
Þau Einar Haraldsson og Magndís Alexandersdóttir bættust í hóp heiðursfélaga UMFÍ á Sambandsþingi UMFÍ í gærkvöldi og voru sæmd með sérstökum heiðursfélagakrossi. Þetta er æðsta viðurkenning Ungmennafélags Íslands.
Einar var um árabil formaður og framkvæmdastjóri Keflavíkur, íþrótta- og ungmennafélags, og Magndís var formaður Héraðssambands Snæfellsness- og Hnappadalssýslu (HSH). Bæði hafa þau auk þess setið í stjórn UMFÍ.
Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ, las upp stutta tölu einstaklingana fjóra og afhenti heiðursviðurkenningarnar.
Jóhann las upp eftirfarandi um Einar Haraldsson:
Einar Haraldsson hefur haft djúpstæð áhrif á íþróttastarf á Suðurnesjum í mörg ár. Það er kannski ekki á allra vitorði en Einar er aðfluttur í Keflavík, fæddur í Reykjavík og alinn upp í Garðahreppi og útskrifaður úr húsasmíði frá Iðnaskólanum í Hafnarfirði.
Einar flutti ekki til Keflavíkur fyrr en árið 1977.
En það skiptir auðvitað engu fyrir okkar sögu og íþróttamál í Keflavík því hann er fyrir löngu orðinn rótgróinn hluti af samfélaginu.
Ferill Einars í keflvísku íþróttalífi spannar rúm 40 ár.
Hann var kjörinn í varastjórn Ungmennafélags Keflavíkur árið 1985 og varð síðasti formaður félagsins níu árum síðar. Um mitt ár 1994 varð Keflavík, íþrótta- og ungmennafélag til úr sex íþróttafélögum.
Einar stóð vaktina af elju í 39 ár, þar af 26 sem formaður og 25 ár sem framkvæmdastjóri Keflavíkur.
Einar hefur auk þess látið til sín taka í stjórn UMFÍ. Hann sat í varastjórn UMFÍ um fjögurra ára skeið, frá 2003 til 2007 og í aðalstjórn næstu fjögur ár á eftir. Stjórnarseta hans taldi því 8 ár. Hann sat þar í framkvæmdastjórn ásamt fleiri nefndum og á nú sæti í fjárhags- og greiningarnefnd. Hann hefur auk þess tekið þátt í öðru starfi UMFÍ eins og í starfi Almannaheilla.
Þar utan sat hann í stjórn Íþróttabandalags Reykjanesbæjar í áratug, bæði sem varaformaður og formaður.
Einar hefur ekki aðeins sinnt félagsmálum af mikilli ábyrgð heldur einnig verið drifkraftur í uppbyggingu, samstöðu og árangri Keflavíkur. Hann hefur verið traustur leiðtogi, hlýr félagi og orðstír hans afar góður.

Einar með Birgi Bragasyni sem tók við framkvæmdastjórastöðunni af honum hjá Keflavík í fyrra.
