Sigrar Suðurnesjaliðanna í Bónusdeild kvenna
Önnur umferð Bónusdeildar kvenna hófst í gærkvöldi og voru Suðurnesjaliðin á keppa. Grindavíkurkonur léku sinn fyrsta heimaleik í tæp tvö ár í Grindavík og unnu nýliða Ármanns örugglega, 86-59. Njarðvík gerði góða ferð á Hlíðarenda og unnu Valskonur 77-80 og Keflavík er komið á blað, unnu Hamar/Þór Þ á heimavelli, 102-89.
Grindavík - Ármann 86-59
Abby Beeman var frábær í liði Grindavíkur og skilaði 32 framlagspunktum (22 stig og 9 stoðsendingar). Nýi leikmaðurinn Farhyia Abdi var með 11 stig og 4 fráköst. Grindavík leiddi frá upphafi til enda og aldrei spurning um hvoru megin sigurinn myndi enda.
Valur - Njarðvík 77-80
Flottur sigur Njarðvíkurkvenna í hörkuleik á móti Valskonum sem byrjuðu betur og leiddu að loknum fyrsta leikhluta, 26-22 og í hálfleik með sama mun. Njarðvík kom til baka í seinni hálfleik, áttu frábæran þriðja leikhluta sem þær unnu 14-22 og lönduðu að lokum þriggja stiga sigri, 77-80.
Danielle Rodriguez var frábær í liði Njarðvíkur og skilaði 35 framlagspunktum (22 stig, 14 fráköst og 5 stoðsendingar). Brittany Dinkins líka góð með 30 stig og 7 fráköst.
Keflavík - Hamar/Þór Þ 102-89
Keflavík sem lét báða útlendinga sína fara fyrir fyrsta leikinn í síðustu viku, eru ennþá án útlendinga og stendur leit yfir. Það kom hins vegar ekki í veg fyrir öruggan sigur þeirra í gær. Thelma Dís Ágústsdóttir og Sara Rún Hinriksdóttir drógu vagninn, Thelma með 37 í framlag (29 stig, 6 fráköst og 3 stoðsendingar. Sara Rún skilaði 30 framlagspunktum (26 stig, 11 fráköst og 4 stoðsendingar).