Upphitun fyrir körfuknattleikstímabilið: Keflvíkingar með færri útlendinga í ár
Viðtal við Daníel Guðna Guðmundsson, þjálfara karlaliðs Keflavíkur
Daníel Guðni Guðmundsson er kominn aftur í aðalþjálfarahlutverkið eftir að hafa verið til aðstoðar undanfarin tímabil. Hann tók við karlaliði Keflavíkur í vor og segist fara bjartsýnn inn í tímabilið. „Það er bara eftirvænting og spenna, alltaf gaman þegar Íslandsmótið er að hefjast, áhuginn á körfunni er gríðarlegur hér á landi, ekki síst hér á Suðurnesjum,“ segir hann. „Síðasta tímabil endaði undir væntingum hjá félaginu en yfir heildina voru margir jákvæðir punktar. Nú er fókusinn á að gera hlutina skýrari, stilla hlutverk og byggja ofan á styrkleika liðsins.“
Tekur við Keflavík
Aðspurður um ákvörðunina að taka við Keflavík segir Daníel að verkefnið hafi hljómað spennandi frá upphafi. „Þetta er stórt félag og metnaðurinn er mikill. Mér fannst eðlilegt að stíga inn í þetta á þessum tímapunkti,“ segir hann. Hann bendir á að breytingar á reglum um erlenda leikmenn í deildinni þýði jafnframt meiri ábyrgð fer á íslenska leikmenn. Það eru efnilegir leikmenn að koma upp hjá Keflavík, í elstu flokkunum, einnig í 10. bekk og í yngri flokkum, þeir hafa fengið mínútur í æfingaleikjum og gripið tækifærið. Ef menn sýna að þeir ráða við verkefnið þá fá þeir að stíga inn á parketið.“
Nýir erlendir leikmenn og Hilmar á batavegi
Keflavík fer inn í haustið með þrjá nýja erlenda leikmenn. „Við erum með þýsk‐ástralskan leikmann, Bandaríkjamann og Breta,“ útskýrir Daníel. „Þeir hafa stigið vel inn í þetta, nú snýst þetta um að fá þá í gott leikform og fínstilla hlutverkin.“
Hilmar Pétursson er að koma til baka eftir meiðsli og Daníel er jákvæður. „Hilmar hefur verið að taka skref fram á við og sýnir sínar gömlu, góðu hliðar. Ég hlakka til að sjá hvernig hann á eftir að hjálpa liðinu þegar á líður,“ segir hann.
Undirbúningurinn hefur verið markviss: þátttaka í mótum og æfingaleikir gegn sterkum andstæðingum hafa gefið ýmis svör. „Æfingaleikirnir eru framlenging á æfingunum, við erum að prófa kerfi, sjá hvað smitast af æfingavellinum yfir á parketið og vera klárir fyrir fyrsta alvöru leikinn. Það hefur að mestu skilað sér.“
Markmiðin skýr og deildin harðari
Hvernig líta markmiðin út? „Þetta er Keflavík og ég veit að stuðningsmenn og fólkið í kringum klúbbinn vill vera meðal þeirra bestu,“ segir Daníel ákveðinn. Það er langur vetur framundan og við vinnum þetta skref fyrir skref, við viljum eflast með hverri vikunni og toppa á réttum tíma.“
Daníel gerir ráð fyrir hörkukeppni í vetur þrátt fyrir takmörkun á fjölda erlendra leikmanna. „Gæðin eru góð; mörg lið eru með fjóra erlenda leikmenn, sum með fyrrum erlenda leikmenn sem eru með íslenskan ríkisborgararétt, og önnur lið með íslenska leikmenn sem hafa verið í kringum landsliðið. Deildin er er mjög sterk og verða mörg lið sem munu gera tilkall til þess stóra,“ sagði Daníel að lokum.