Upphitun fyrir körfuknattleikstímabilið: „Við viljum vera í stöðugum stíganda“
Viðtal við Hörð Axel Vilhjálmsson, þjálfara kvennaliðs Keflavíkur
Kvennalið Keflavíkur þekkir fátt annað en stefna á alla titla sem í boði eru. Slík var uppskeran á þarsíðasta tímabili en lítið gekk í fyrra. Hörður Axel Vilhjálmsson tók á ný við liði Keflvíkinga fyrir þetta tímabil en hann þjálfaði þær samhliða að leika með karlaliði félagsins fram til vors 2023. Hörður segir undirbúningstímabilið hafa gengið upp og ofan en liðið stefni að því að vera í stöðugum stíganda fram að úrslitakeppninni.
Keflavík hefur leik í kvöld í Bónusdeild kvenna, mætir Val á heimavelli og hefst leikurinn kl. 19:15.
Breytt lið og nýjar áskoranir
Hörður segir liðið hafa tekið miklum breytingum frá því hann stýrði því síðast.
„Þetta er mikið breyttur hópur. Sara, Bríet og Thelma eru komnar inn auk erlendra leikmanna, og nokkrar hafa hætt eða skipt um félag,“ útskýrir hann. „Hlutverk leikmanna sem áður voru hafa breyst.“ Aðspurður um Birnu Benónýsdóttur sem sleit krossband og er í endurhæfingu segir Hörður:
„Við vinnum þetta saman skref fyrir skref. Það er ómögulegt að segja nákvæmlega hvenær hún kemur aftur, en við setjum enga óþarfa pressu á hana,“ segir hann. „Svo er Emilia komin til baka eftir barnsburð.“
Keflavík hefur þegar leikið nokkra æfingaleiki og segir Hörður þá hafa verið nytsamlega til að meta stöðuna.
„Úrslitin hafa ekki verið í forgrunni. Fyrir mig snýst þetta um að sjá hvar við þurfum að bæta okkur,“ segir hann. „Markmiðið er einfalt – vinna næsta leik. Með því móti vinnum við okkur smám saman í þá stöðu að geta keppt um titla.“
Sterk deild
Aðspurður um helstu keppinauta segir Hörður að deildin sé sterkari en áður.
„Njarðvíkurkonur eru gríðarlega sterkar og byggja ofan á það sem þær gerðu í fyrra. Haukar hafa haldið vel í sitt. Grindavík hefur styrkt sig mikið og svo má aldrei afskrifa lið eins og Val, Hamar/Þór munu held ég koma á óvart, sem og Stjarnan sem er með mjög spennandi lið í höndunum“ segir hann. „Það er ljóst að enginn leikur verður auðunninn. Það er nógur tími framundan, við viljum einfaldlega vera í stöðugum stíganda. Það er það sem skiptir máli þegar líður að lokasprettinum.“
Í lok samtalsins bar blaðamaður upp þessa spurningu: „Hvað gerir Hörður Axel ef lítið gengur hjá karlaliðinu og körfuknattleiksdeild Keflavíkur er tilbúin að rífa upp veskið og fá hann sem leikmann?“
Eftir talsverða þögn sprungu báðir úr hlátri. „Nei, ég er ekki að fara spila meira, það er kafli sem ég hef ákveðið að loka,“ segir Hörður og bætir við að hann hafi ekki einu sinni tíma í sólarhringnum í slíkt. „Ég er búinn að vera að vinna hjá ráðgjafa- og hönnunarstofunni Aton í Reykjavík undanfarin tvö ár og kann mjög vel við mig í þessu starfi. Það er eiginlega frekar skemmtilegt að vera í vinnu þar sem við tölum um heimspeki og listir í kaffitímanum, en ekkert um enska boltann,“ sagði Hörður Axel að lokum.