Vel heppnaðir upplýsingafundir hjá Grindvíkingum
„Helsta málefnið að við erum komin á aukið hættustig og erum því komin enn og aftur í startholurnar varðandi önnur eldsumbrot. Annars hafa þessir þrír fundir verið góðir, upplýsandi og vel heppnaðir,“ segir Guðbjörg Eyjólfsdóttir hjá Járngerði, hagsmunafélagi Grindavíkur en þriðji fundur Járngerðar var 29. september. Allir fundirnir eru teknir upp á „Teams“ og eru birtir á vf.is
Auk umræðu um hættustigið kom fram að landanir í Grindavíkurhöfn eru um 80% af því sem var landað árið 2023 en rýming bæjarins var 10. nóvember það ár. Þá kom fram að á annað hundrað viðburðir hafa verið auglýstir í Grindavík á árinu. Fjörugur föstudagur verður haldinn 28. nóv. og er stefnt að því að halda hann eins öflugan og hægt er. Hugmynd kom upp um að hóa saman öllu starfsfólki í sjávarútvegi í Grindavík og taka mynd af því og nota mynd til að auglýsa fjörugan föstudag.
Þá kom fram að um 200 íbúðir væru í Grindavík sem eru ekki í eigu Fasteignafélagsins Þórkötlu.
Fyrsti heimaleikur karlaliðs Grindavíkur er á föstudag og er mikil stemmning fyrir honum.
Hér að neðan má sjá upptöku frá upplýsingafundinum en hann sitja um 30 manns í hvert skipti, allt aðilar sem koma að hinum ýmsu málum í bæjarfélaginu.