Atnorth
Atnorth

Íþróttir

Upphitun fyrir körfuknattleikstímabilið: Fjórir bakkarar í byrjunarliði Njarðvíkurkvenna
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
þriðjudaginn 30. september 2025 kl. 09:24

Upphitun fyrir körfuknattleikstímabilið: Fjórir bakkarar í byrjunarliði Njarðvíkurkvenna

Njarðvíkurkonur hefja leik í kvöld

„Við búum lið okkar til út frá þeim kjarna Njarðvíkinga sem eru til staðar,“ segir þjálfari kvennaliðs Njarðvíkur, Einar Árni Jóhannsson. Einar Árni tók við liði Njarðvíkur í fyrra og var árangurinn frábær, liðið varð bikarmeistari og spilaði hreinan úrslitaleik við Hauka um Íslandsmeistaratitilinn eftir að hafa lent 0-2 undir í lokaúrslitunum. Haukar unnu nauman sigur en segja má að Njarðvíkurkonur hafi náð fram hefndum í leik liðanna á sunnudaginn um nafnbótina „Meistari meistaranna.“ Talsverðar breytingar urðu á leikmannahóp Njarðvíkur, hann minnkaði í meðalhæð og fyrir vikið mun liðið leika öðruvísi og má búast við hröðum leik Njarðvíkurkvenna þar sem fjórir bakverðir verða líklega í byrjunarliðinu.

Einar Árni skýrði út breytingarnar á hópnum.

„Við áttum gott tímabil í fyrra og komum eflaust mörgum á óvart. Við gerðum breytingar á hópnum í sumar. Það má ekki misskilja þá ákvörðun, við vorum mjög ánægð með Emilie sem bar fyrirliðabandið á síðasta tímabili en við ákváðum að breyta leikstílnum og gera meira út á þá frábæru bakverði sem við eigum í kippum og við vorum þess utan að fá Helenu Rafnsdóttur heim eftir þriggja ára veru í háskólaboltanum vestanhafs. Við vorum búin að ganga frá tveggja ára samningi við Brittany Dinkins og þegar við vissum að Danielle Rodriguez sem býr í Innri-Njarðvík, væri að koma aftur til Íslands var ekki nokkur vafi í okkar huga að reyna semja við hana. Fyrir utan að vera frábær leikmaður þá er Danielle fyrirtaks þjálfari og er að nýtast uppbyggingu körfuknattleiks í Njarðvík mjög vel samhliða því að leika með liðinu. Brittany er líka að þjálfa hjá okkur svo ég kvíði ekki framtíðinni hjá körfuknattleiksdeild Njarðvíkur.

Bílakjarninn frá sept. 25
Bílakjarninn frá sept. 25

Paulina Hersler kom geysilega sterk inn í þetta hjá okkur á miðju síðasta tímabili og eins fengum við Eygló Kristínu Óskarsdóttur og ætluðum henni stærra hlutverk en í fyrra en Eygló gengur í dag um sem kona eigi einsömul og verður því ekki með okkur strax en við fengum efnilega stelpu úr Haukum, Ingu Leu Ingadóttur, og verður spennandi að sjá hvernig hún vex með okkur þegar hún kemur til baka eftir meiðsli, en hún var kosin leikmaður mótsins hjá U-16 liði Íslands á Norðurlandamóti í sumar.“

Fjórir bakverðir í byrjunarliði

Einar Árni og aðstoðarþjálfari hans, Ólafur Helgi Jónsson, þekkja vel til „small ball“ leikstílsins en þar er hæð og þyngd leikmanna fórnað fyrir minni og hraðari leikmenn.

„Við búum yfir miklum fjölda frábærra bakvarða og þá er ég ekki bara að tala um Brittany og Danielle. Krista Gló, Hulda María, Sara Björk og Lára Ösp eru dæmi um öfluga njarðvíska bakverði sem áttu gott tímabil í fyrra og ég gæti nefnt margar aðrar. Við ákváðum að byggja leikstíl okkar á þessum kjarna sem við eigum en sagan segir okkur að liðin sem ná árangri eru venjulega liðin sem búa að öflugum kjarna uppaldra leikmanna. Þessar stelpur sem ég nefndi og margar aðrar, stigu heldur betur upp á síðasta tímabili og væri glapræði af okkar hálfu að styðja ekki við bakið á þeim og hlakka ég mikið til komandi tímabils, ég veit að við munum leika hraðari bolta en áður og trúi því að það verði gaman að fylgjast með liðinu okkar.

Þau lið sem munu keppa um titlana  verða væntanlega þau sömu og voru sterk á síðasta tímabili, Haukarnir eru Íslandsmeistarar, við vitum vel hvað býr í Keflavík og ég held að Valur komi sterkar upp aftur. Grindavík er með vel mannað lið en ég held að deildin hafi aldrei verið eins sterk eins og í ár, öflugir erlendir leikmenn svo gæðin eru mjög mikil. Ég á von á spennandi og skemmtilegum vetri og við Njarðvíkingar ætlum að sjálfsögðu að leggja mikið á okkur og stefna á öfluga uppskeru,“ sagði Einar Árni að lokum.

Safnahelgi 2025
Safnahelgi 2025