Frans fyrirliði flottur í sínum 500. leik
Fyrirliði Keflavíkinga, Frans Elvarsson var heldur betur í sviðsljósinu í úrslitaleiknum gegn HK á Laugardalsvelli síðasta laugardag en þetta var hans 500. leikur á Íslandi. Frans skoraði glæsilegt mark í leiknum og tók svo á móti bikarnum fyrir sigurinn í úrslitakeppni Lengjudeildar.
Frans kom til Reykjanesbæjar 2007 og lék með Njarðvík til 2011 þegar hann gekk til liðs við Keflavík en Fransi er uppalinn hjá Sindra á Höfn í Hornafirði en þar hóf hann knattspyrnuferilinn í meistaraflokki aðeins 15 ára gamall.
Frans er nú í hópi leikjahæstu leikmanna Keflavíkur frá upphafi en hann hefur vermt Keflavíkurbúninginn í 364 leikjum.
Frans á að baki 170 leiki í efstu deild - 160 í B-deild og 39 í C-deild. Bikarleikir eru 33 og 93 í deildarbikar. Auk þess hefur Frans leikið 11 landsleiki með yngri landsliðum Íslands.
Frans var spurður að því í viðtali eftir úrslitaleikinn við HK á Laugardalsvelli hvort hann yrði áfram með Keflavík en kappinn er 35 ára.
Fransi skallar boltann í markið gegn HK.