Atnorth
Atnorth

Íþróttir

Upphitun fyrir körfuknattleikstímabilið: Búnir að æfa fjórum sinnum 5 á 5
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
mánudaginn 29. september 2025 kl. 13:28

Upphitun fyrir körfuknattleikstímabilið: Búnir að æfa fjórum sinnum 5 á 5

Grindvíkingar æfa stundum í Grindavík og munu leika nokkra leiki þar, m.a. þann fyrsta á föstudagskvöld gegn Njarðvíkingum

„Undirbúningurinn hefði mátt vera betri, við vorum mjög þunnskipaðir fram eftir öllu sumri og þegar þessi orð eru sögð hef ég einungis fjórum sinnum náð að stilla upp 5 á móti 5 á æfingu, það gefur auga leið að slíkt er ekki vænlegt til árangur en okkur á eftir að vaxa ásmegin eftir því sem líður á tímabilið og allir vita hver markmið okkar eru,“ segir þjálfari karlaliðs UMFG í körfuknattleik, Jóhann Þór Ólafsson.

Jóhann fór yfir breytingarnar á hópnum.

„Við missum tvo sterka Íslendinga, þá Val Orra Valsson og Braga Guðmundsson en erum með sterkari útlendingahersveit myndi ég segja, tveir þeirra hafa verið undanfarin tvö ár, Daninn Daniel Mortensen og Deandre Kane. Kaninn okkar verður Khalill Shabazz sem lék með Njarðvík í fyrra og svo styrkjum við hópinn með fjórða útlendingnum Jordan Semple sem hefur verið á meðal sterkari útlendinga í deildinni undanfarin ár að mínu mati. Ég er mjög ánægður með að hafa geta bætt honum í hópinn. Við erum að leita að íslenskum viðbótum en þú þarft að hafa 13-14 manna hóp svo vel megi vera, það koma alltaf upp meiðsli og veikindi og því þarf æfingahópurinn að vera sterkur og ég veit að minn hópur verður orðinn sterkur þegar tímabilið hefst en ég viðurkenni fúslega að þetta var ansi þunnskipað í sumar. Grindavík er ekki með neitt yngri flokka starf og því eru ekki verkefni fyrir okkar ungu leikmenn í unglingaflokki en þetta horfir allt til betri vegar núna.

Bílakjarninn frá sept. 25
Bílakjarninn frá sept. 25

Ég þurfti líka að fá nýjan aðstoðarþjálfara því nafni minn, Jóhann Árni vildi taka pásu fyrst ekki var gefið út að liðið myndi alfarið æfa og keppa í Grindavík. Það var mjög gott á milli okkar nafnanna en ég virði ákvörðun hans og fékk KR-inginn Helga Magnússon í hans stað. Það kemur auðvitað ný rödd með Helga og sumir segja að það þyrfti að koma með einhverja breytingu, okkur hefur jú ekki gengið að landa þeim stóra þó svo að við höfum komist nærri. Þetta segi ég með fullri virðingu fyrir Jóhanni Árna sem ég hef mjög mikið álit á en það kemur öðruvísi vinkill með Helga og vonandi munum við fara alla leið á þessu tímabili, okkar markmið hafa ekkert breyst varðandi það.“

Æft á tveimur stöðum

Grindavík hefur æft og leikið í Smáranum síðan 18. nóvember 2023 en hefur æft í Grindavík í sumar samhliða æfingum í Smáranum og fyrsti heimaleikurinn verður leikinn í Grindavík föstudaginn 3. október.

„Á síðasta tímabili æfðum við bæði í Smáranum og í íþróttahúsinu við Kársnesskóla en á þessu undirbúningstímabili höfum við getað æft í Grindavík líka. Eins og sakir standa munum við leika þrjá leiki í Grindavík og ég held að við verðum alkomnir heim fyrr en sumir halda en ég hef ekkert skipt mér af þeim málum. Okkur líður best heima í Grindavík, þekkjum þar alla króka og kima og viljum komast sem fyrst heim en ég læt aðra um að taka ákvarðanir í þeim efnum og fylgi bara því sem er ákveðið og vinn með það. 

Ég verð mjög svekktur út í sveitunga mína ef ekki verður sneysafullt á þessum fyrsta heimaleik í Grindavík og vona að nafni hafi sundlaugina í Grindavík opna á föstudaginn. Fyrirtækin sem urðu til út frá Þorbirni munu bjóða frítt á leikinn, hamborgarar verða grillaðir í Gjánni og verður meira í boði. Ég vil sjá íþróttahúsið okkar fullt og þetta verður vonandi byrjunin á einhverju mjög góðu fyrir okkur Grindvíkinga,“ sagði Jóhann Þór að lokum.

Safnahelgi 2025
Safnahelgi 2025