RNB Lýðheilsu og forvarnarvika 28. sept - 5 okt
RNB Lýðheilsu og forvarnarvika 28. sept - 5 okt

Íþróttir

Keflvíkingar aftur á meðal þeirra bestu
Keflvíkingar fögnuðu með stuðningsmönnum sínum. Hér er liðið með sitt fólk í baksýn í stúkunni í Laugardal. VF/pket.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
laugardaginn 27. september 2025 kl. 20:51

Keflvíkingar aftur á meðal þeirra bestu

Rúlluðu yfir HK í úrslitaleik á Laugardalsvelli um sæti í Bestu deild .

Keflvíkingar sýndu allar sínar bestu hliðar þegar þeir unnu stórsigur á HK í úrslitaleik um sæti í Bestu deild á næsta ári á Laugardalsvelli í dag. Lokatölur 4-0 og Keflvíkingar fögnuðu innilega í leikslok.

Það var ljóst frá fyrstu mínútu að bítlabæjarliðið var komið til að klára þennan úrslitaleik. Á 14. mínútu skoraði Stefán Ljubicic flott mark þegar hann fékk boltann inn í teiginn og skallaði í markið eftir sendingu frá Muhamed Alghoul. Stefán áfram heitur eftir mörg mörk að undanförnu en svo þurfti hann að fara af velli á 26. mínútu vegna eymsla í mjöðm.

Það liðu ekki nema fjórar mínútur þar til næsta mark sá dagsins ljós. Muhamed var aftur á ferðinni þegar hann fékk boltann á vinstri kantinum. Hann lék með boltann inn í teig án þess að varnarmenn HK kæmu vörnum við og lagði boltann fyrir Eið Orra Ragnarsson sem kláraði með stæl, 2-0 fyrir Keflavík.

Bílakjarninn frá sept. 25
Bílakjarninn frá sept. 25

Þriðja markið kom á 43. mínútu sem oft hefur verið nefnd markamínútan. Eftir aukaspyrnu frá Muhamed sem mataði sína menn af kantinum í leiknum, var Keflavíkurfyrirliðinn Frans Elvarsson sterkastur og skallaði boltann hátt yfir markvörð HK sem kom engum vörnum við, staðan orðin 3-0 og gaurarnir úr Kópavogi vissu ekki sitt rjúkandi ráð og voru ráðalausir á meðan Keflvíkingar léku við hvern sinn fingur.

Keflvíkingar gátu mætt nokkuð rólegir í síðari hálfleik en samt með kassann út og gáfu ekkert eftir vitandi það að Kópavogskappar ætluðu að sækja og berjast til síðasta blóðdropa. Það gerðist ekki, HK reyndu þó hvað þeir gátu en uppskáru lítið þó þeir hafi á köflum verið meira með boltann. Keflvíkingar áttu nokkrar góðar sóknir og úr einni þeirri skoraði Kári Sigfússon eftir sendingu frá Viktori Elmari Gautasyni og kláraði dæmið, 4-0. Stuttu seinna flautaði dómari leiksins til leiksloka. Keflvíkingar fögnuðu og leik í deild með þeim bestu á næsta ári.

Stefán Ljubicic kemur Keflavík í forystu með fallegu marki 1-0.

Eiður Orri Ragnarsson skorar með góðu skoti, 2-0 fyrir Keflavík.

Fyrirliðinn Frans Elvarsson skallar boltann í netið, óverjandi fyrir markvörð HK, 3-0.

Kári Sigfússon klárar dæmið fyrir Keflavík og skorar fjórða markið eftir sendingu frá Viktori Elmari Gautasyni.

Keflavík-HK úrslit á Laugardalsvelli 27. sept. 2025

Safnahelgi 2025
Safnahelgi 2025