Fimleikadeild Keflavíkur 40 ára
Fimleikadeild Keflavíkur hélt upp á 40 ára afmæli sitt með glæsilegri afmælisveislu í Fimleikaakademíunni föstudaginn 12. september. Þar komu saman núverandi og fyrrum iðkendur, þjálfarar, foreldrar og velunnarar deildarinnar til að fagna þeim fjórum áratugum sem liðið hafa frá stofnun deildarinnar.
Vinir deildarinnar færðu gjafir í tilefni dagsins og fimleikadeildin bauð upp á afmælisköku auk þess sem blaðrarinn kom í heimsókn. Akademían var í hátíðarbúning og gestir höfðu tækifæri til að skoða sögu deildarinnar í myndum.
Þessu afmælisári hefur verið fagnað allt árið og ná hátíðarhöldin ákveðnum hápunkti nú í afmælismánuðinum með veislu og sérstökum góðgerðarviðburði sem haldinn verður í lok mánaðarins. – Hoppað til góðs, þegar fimleikadeildin ætlar að nýta krafta sína í að gefa til baka til samfélagsins.
„Við erum stolt af því að hafa í gegnum árin lagt okkar af mörkum til íþróttalífs í bænum og hlökkum til að halda áfram að efla fimleikastarf fyrir börn og ungmenni í Reykjanesbæ,“ segir í frétt frá deildinni.