Bragi Guðmundsson - Báruklöpp
Bragi Guðmundsson - Báruklöpp

Íþróttir

Njarðvík marki yfir í hálfleik undanúrslitanna - seinni leikurinn á sunnudag
Það var hart barist á HS Orku vellinum í Keflavík í þriðja grannaslag liðanna í sumar. VF/hilmarbragi.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
miðvikudaginn 17. september 2025 kl. 19:51

Njarðvík marki yfir í hálfleik undanúrslitanna - seinni leikurinn á sunnudag

Njarðvíkingar höfðu betur í fyrri úrslitaleiknum gegn Keflavík í annarri undanúrslitaviðureigninni í Lengjudeildinni í knattspyrnu en fyrri leikurinn fór fram á HS Orku vellinum í Keflavík í dag. Lokatölur 1-2 fyrir Njarðvík í mjög skemmtilegum og fjörlegum leik.

Leikurinn fór fjörlega af stað og bæði lið börðust um hvern bolta og mátti sjá marktækifæri báðum megin en þeir grænu léku undan léttri golu í fyrri hálfleik. Þeir komust í forystu á 20. mínútu. Boltinn barst inn í teig eftir nokkuð langa aukaspyrnu á miðjum vallarhelmingi heimamanna, Njarðvíkingar unnu boltann við endalínu og hann barst inn í fjölmennan teig þar sem þeirra besti markaskorari, Oumar Diouck náði að pota honum yfir marklínuna.

Njarðvíkingar tvöfölduðu forystuna á 32. mínútu. Eftir að Keflvíkingar höfðu hreinsað frá eftir hornspyrnu gestanna flautaði dómari leiksins, Twana K. Ahmed og benti á vítapunktinn, öllum sem á vellinum voru til mikillar undrunar. Ástæða vítaspyrnudómsins var brot Marins Brigic á einum leikmanni Njarðvíkur inni í vítateig en hann á að hafa sparkað til hans þegar þeir féllu báðir í jörðina. Marin fékk gult spjald og UMFN víti. Keflvíkingar voru mjög ósáttir og Sindri K. Ólafsson fékk gult spjald fyrir að sýna óánægju sína. Tómar Bjarki Jónsson, fyrirliði UMFN skoraði örugglega úr vítinu.

Keflvíkingar gáfu í eftir þetta og voru hættulegri það sem eftir lifði hálfleiks án þess að ná að nýta sér það. 0-2 í leikhlé.

Heimamenn komu ákveðnir til leiks í síðari hálfleik og sóttu látlaust að marki gestanna sem vörðust vel. Nacho Heras átti langt skot utan við teig sem endaði í þverslá Njarðvíkurmarksins. Njarðvíkingar áttu nokkrar skyndisóknir sem voru hættulegar en á 68. mínútu báru sóknir Keflvíkinga loks árangur. Boltinn barst fyrir markið eftir hornspyrnu Eiðs Orra Ragnarssonar og small á höfði Stefáns Ljubicic sem skoraði fallegt mark 1-2.

Keflvíkingar sóttu áfram án afláts en náðu ekki að nýta færin en nokkuð bætti í vindinn í síðari hálfleik og hjálpaði heimamönnum í sóknum þeirra.

Staðan því 1-2 fyrir þá grænu sem geta verið ánægðir með sigur á útivelli en um 1500 áhorfendur mættu á HS Orku völlinn. Seinni úrslitaleikur liðanna verður á JBO vellinum í Njarðvík á sunnudaginn. Það verður stærsti leikur í sögu njarðvískrar knattspyrnu og mikið undir því nái Njarðvík að klára Keflvíkinga í þessu umspili leika þeir til úrslita við Þrótt eða HK um laust sæti í Bestu deild 2026.

Nái Njarðvík því markmiði sínu að klára Keflavík og vinna úrslitaleikinn verða tvö lið úr græna hverfinu í Bestu deildum knattspyrnunnar á næsta ári, bæði karla- og kvennalið en Keflavík í deild fyrir neðan. Það hefur aldrei gerst áður í sögu knattspyrnunnar í Keflavík og Njarðvík - Reykjanesbæ!

Myndasafn úr leiknum má sjá hér að neðan og viðtöl við þjálfara og fyrirliða.

Boltinn kominn inn í mark Keflavík, 0-1 eftir að Oumar Diouck náði að pota honum yfir marklínuna.

Tómar Bjarki Jónsson, fyrirliði UMFN skoraði örugglega úr vítinu.

Stefán Ljubicic skallar í mark UMFN og minnkar muninn í 1-2.

Keflavík - Njarðvík (1:2) // Lengjudeild karla 17. september 2025