Litli bróðir bognaði - Keflavík vann og fer í úrslitaleikinn
„Ég á erfitt með að lýsa því hvað þetta eru mikil vonbrigði en við bara bognuðum,“ sagði Gunnar Heiðar Þorvaldsson, þjálfari Lengjudeildarliðs Njarðvíkinga eftir 0-3 tap gegn stóra bróður úr Keflavík í seinni umspilsleik liðanns á JBO vellinum í Njarðvík. Keflavík vann sanngjarnan og stóran sigur og mætir HK í hreinum úrslitaleik næsta laugardag um sæti í Bestu deildinni 2026. „Við vorum í úrslitaleiknum í fyrra og þekkjum það en ætlum að gera betur núna,“ sagði Haraldur Guðmundsson, þjálfari Keflvíkinga.
Ragmagnað andrúmsloft
Það var vel mætt á JBO völlinn í Njarðvík og rafmagnað andrúmsloft. Fyrri hálfleikurinn einkenndist af háu spennustigi hjá báðum liðum og fátt markvert gerðist. Seinni hálfleik var rétt byrjaður þegar fyrsta markið leit dagsins ljós, alvöru mark hjá Keflvíkingum. Eftir langt innkast tók Marin Mudrazija boltann á lofti og negldi hann í netið, óverandi fyrir Aron Friðriksson, markvörð UMFN.
Eftir 1-2 sigur Njarðvíkinga í fyrri leiknum í vikunni voru nágrannarnir búnir að jafna. Þeir efldust við markið og tóku öll völd á vellinum. Sóttu stíft og voru grimmari í öllum boltum. Á 62. mínútu var dæmd óbein aukaspyrna þegar Aron markvörður fékk boltann frá samherja rétt utan við markteigslínuna. Marin og Stefán Ljubicic stilltu sér upp við boltann og sá fyrrnefndi ýtti boltanum til Stefáns sem sendi hann með frábæru skoti yfir varnarmúr Njarðvíkinga markhornið fjær. Snilldarlega gert. Keflavík var komið yfir í einvíginu 2-3.
Njarðvíkingar ráðlausir
Njarðvíkingar vissu ekki sitt rjúkandi ráð og voru ráðalausir í sínum leik. Fjórum mínútum síðar skoraði Sindri Snær Magnússon gott mark með góðu skoti rétt utan við vítateig en Þórður Þorsteinsson dómari dæmdi markið af. Taldi að Keflvíkingur hefði skyggt á markvörðinn fyrir innan. Stuttu seinna vildu Njarðvíkingar fá víti en boltinn fór í hönd Eiðs Orra Keflvíkings en Þórður dómari dæmdi horn. Njarðvíkingar voru meira með boltann síðustu tíu mínúturnar og reyndu af veikum mætti að ógna marki Keflavíkur en án árangurs. Stefán Ljubicic mætti við þriðja marki Keflavíkur á 93. mínútu eftir skyndisókn en boltinn barst til hans inn í markteig frá Kára Sigfússyni og Ljúbbi renndi honum í netið og gulltryggði stóran sigur 0-3 og 2-4 í einvíginu.
Sigur Keflvíkingar var sanngjarn. Þeir voru sannkallaður stóri bróðir í síðari hálfleik og Njarðvíkingar náðu ekki að stíga upp í stærsta leik í sögu félagsins og því fór sem fór.
Óvíst með framhald hjá þjálfara UMFN
Gunnar Heiðar Þorvaldsson, þjálfari UMFN sem hefur gert frábæra hluti með Njarðvíkurliðið undanfarin tvö og hálf ár segir í viðtali við Víkurfréttir eftir leikinn að hann viti ekki hvert framhaldið verði með sig. Haraldur og Stefán Ljubicic voru að vonum ánægðir með sigurinn eins og heyra má í viðtölum eftir leikinn.


