Ágreiningur um ráðningu sviðsstjóra
Í umræðum um starfsmannamál á síðasta fundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar lögðust minnhlutaflokkarnir, Umbót og Sjálfstæðisflokkurinn gegn því að ráðið yrði í stöðu menningar- og þjónustusviðs að svo stöddu. Sjálfstæðisflokkur lagði fram tilllögu á bæjarstjórnarfundi um að fresta ráðningunni og skoða möguleika til hagræðingar en hún var felld með atkvæðum meirihlutans.
Í bókun Margrétar Þórarinsdóttur frá Umbót kemur fram að ekki sé tekið undir að auglýst verði í starf sviðsstjóra menningar- og þjónustusviðs að svo stöddu.
„Við blasir að bæjarsjóður stendur frammi fyrir grafalvarlegri fjárhagsstöðu. Handbært fé var 0 krónur í lok júní 2025, skuldir hafa aukist um milljarða og lánsfjármögnun er orðin burðarás í rekstrinum. Í þessari stöðu er óábyrgt að fjölga í dýrum stjórnendastörfum í stað þess að nýta tækifærið til að hagræða í stjórnsýslunni.
Við teljum að í ljósi aðstæðna sé nauðsynlegt að endurskoða stjórnsýsluna í heild, þar sem meðal annars verði skoðað hvort verkefni menningar- og þjónustusviðs verði færð undir önnur svið eða sameinuð. Það er ábyrgðarhluti að forgangsraða grunnþjónustu og verkefnum sem snúa beint að íbúum og ekki að stækka yfirstjórn þegar fjármál sveitarfélagsins eru í ójafnvægi.“
Guðbergur Reynisson (D) tók í sama streng fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins og lagði til að frestað yrði að auglýsa stöðuna.
„Sjálfstæðisflokkurinn leggst alfarið gegn því að auglýsa stöðu sviðsstjóra menningar- og þjónustusviðs að svo stöddu. Í nokkurn tíma hefur verið rætt um að færa ferðamálin yfir til atvinnu-og hafnarráðs, nú er tækifæri til þess. Skoða þarf vel með starfsmönnum hvernig best er að hafa fyrirkomulag menningar og þjónustu. Við erum með frábæran menningarfulltrúa, yfirmenn hinna ýmsu safna o.s.frv. Einnig eru yfirmenn yfir hinum ýmsu þjónustuhlutum. Í ljósi stöðu sveitarfélagsins, teljum við ráðlagt að fara betur yfir málið þar sem möguleiki er þar á hagræðingu.
Sjálfstæðisflokkurinn leggur til að ákvörðun um að auglýsa stöðu sviðsstjóra menningar- og þjónustusviðs verði frestað og skoðað verði hvort ekki sé möguleiki til hagræðingar eða að nýting á fjármagni verði betri,“ segir í bókun sem Guðbergur Reynisson, Margrét Sanders og Alexander Ragnarsson skrifuðu undir..
Tillaga Sjálfstæðisflokksins var felld með sjö atkvæðum meirihlutans gegn fjórum minnihlutans.