Bílakjarninn frá sept. 25
Bílakjarninn frá sept. 25

Pistlar

Línubátar og togarar á flakki um landið
Vísisbáturinn Páll Jónsson GK hefur verið með mikinn afla í september og landaði meðal annars tæpum 150 tonnum í einni löndun á Djúpavogi.
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
fimmtudaginn 18. september 2025 kl. 11:57

Línubátar og togarar á flakki um landið

Stakkavík með þrjá báta á Skagaströnd

Það er orðið vel liðið á september og heldur rólegt hefur verið í höfnum hér á svæðinu. Mikið af bátum, einkum línubátum, er nú við veiðar annars staðar á landinu. Stakkavík ehf. er þar á meðal með þrjá báta á Skagaströnd; Hópsnes GK, Gulltopp GK og Geirfugl GK. Geirfugl GK hóf þó vertíðina í Sandgerði og landaði þar um 16 tonnum í fjórum róðrum, mest 8,5 tonnum í einu, áður en hann hélt norður á Skagaströnd. Þar hefur báturinn síðan landað um fjórum tonnum í einni löndun.

Á Siglufirði er Óli á Stað GK við veiðar og hefur hann landað 110 tonnum í tólf róðrum, mest rúmum 11 tonnum í róðri. Allur afli Stakkavíkurbátanna er fluttur til vinnslu í Sandgerði, þar sem fyrirtækið hefur bæði vinnslu og aðstöðu fyrir línuna. Á Skagaströnd er einnig Fjölnir GK sem er að veiða fyrir Vísi ehf. Hann hefur landað 54 tonnum í níu róðrum og mestum afla upp á 12 tonn í einni löndun.

Bílakjarninn frá sept. 25
Bílakjarninn frá sept. 25

Ágæt veiði fyrir austan

Fyrir austan eru bátar Einhamars ehf. að landa aðallega í Neskaupstað og hafa veiðarnar gengið vel. Vésteinn GK er þar kominn með 94 tonn í níu róðrum og mest 17 tonn í einni löndun. Auður Vésteins SU hefur landað 86 tonnum í jafn mörgum róðrum og mest 14 tonnum í róðri.

Stóru línubátarnir frá Vísi hafa einnig verið áberandi á Austfjörðum. Sighvatur GK hóf vertíðina í Grindavík en landaði næst á Djúpavogi. Hann er samtals kominn með 240 tonn og þar af voru 122 tonn landuð á Djúpavogi. Páll Jónsson GK byrjaði af krafti í september og landaði fyrst 97 tonnum áður en hann kom með fullfermi til Djúpavogs, tæp 150 tonn í einni löndun. Þar var þorskur langstærsti hluti aflans, eða 134 tonn. Aflinn af bæði Sighvati GK og Páli Jónssyni GK er fluttur til vinnslu í Grindavík og sjá ökumenn hjá Jóni og Margeiri ehf. um þann akstur. Þeir sjást víða á ferð um landið á brúnu trukkunum sínum. 

Togararnir dreifa löndunum

Það eru ekki aðeins línubátarnir sem hafa verið á flakki því að togarnir hafa einnig verið að landa á ólíkum stöðum. Jóhanna Gísladóttir GK hefur landað á Djúpavogi og er nú komin með alls 240 tonn í fjórum löndunum. Pálína Þórunn GK hefur landað þrisvar, á Djúpavogi, í Neskaupstað og í Þorlákshöfn, og er hún komin með um 190 tonn í þremur róðrum. Sóley Sigurjóns GK heldur áfram rækjuveiðum á Siglufirði og hefur hún landað 61 tonni í einni löndun, þar af voru 19 tonn rækja.

Lítil umsvif færabáta

Færabátarnir hafa lítið látið á sér kræla í september. Nokkrir fóru þó á sjó í byrjun mánaðar og var afli þeirra þokkalegur. Frá Sandgerði hafa sex bátar aðeins farið í einn róður hver. Dóra Sæm HF var aflahæst með 1,8 tonn, Tóki ST fylgdi með 1,3 tonnum og Fagravík GK landaði 1,1 tonni. Hinir þrír voru allir með undir einu tonni á færunum.