Veitt í keiluhólfum og dúndurveiði á línuna fyrir austan
Línuskip Vísis, Páll Jónsson GK og Sighvatur GK, hafa gert það gott að undanförnu. Páll Jónsson GK landaði í Grindavík í vikunni að loknum athyglisverðum rannsóknatúr, en Sighvatur GK kom til Grindavíkur um miðnætti á þriðjudagskvöld að lokinni eftirminnilegri veiðiferð. Á vef Síldarvinnslunnar er rætt við skipstjórana og spurt nánar út í veiðarnar.
Rannsóknatúr í lokuðum hólfum
Benedikt Jónsson, skipstjóri á Páli Jónssyni GK, sagði að túrinn hefði verið óvenjulegur. „Við fórum og veiddum í lokuðum reglugerðarhólfum fyrir sunnan land. Þessi hólf hafa verið lokuð í 15–25 ár og mér skilst að ástæða lokunarinnar hafi verið sú að þar var mikið af smákeilu. Með okkur í för voru tveir starfsmenn Hafrannsóknastofnunar,“ sagði hann.
Í túrnum var veitt í þremur hólfum: Ingólfshöfðahólfi, Síðugrunnshólfi og Kötlugrunnshólfi.
„Við byrjuðum á að leggja hálfa lögn í Ingólfshöfðahólfið en síðan voru lagðar tvær lagnir í hinum hólfunum tveimur. Botninn í Ingólfshöfðahólfinu var einstaklega erfiður og gerði okkur lífið leitt. Í Síðugrunnshólfinu fengum við 12 tonn í fyrri lögninni og 16 tonn í þeirri seinni. Í Kötlugrunnshólfinu var hins vegar virkilega góður afli, 36 tonn í fyrri lögninni og 26 í seinni,“ sagði Benedikt.
Um 70% aflans var keila og um 20% langa, en dálítið af ýsu og þorski fékkst einnig með.
„Heildaraflinn í túrnum var 105 tonn og fiskurinn stór og fallegur, ekki síst keilan. Við í áhöfninni erum mjög sáttir við þennan túr og ég vona að þeir frá Hafró séu það einnig. Við gerum okkur vonir um að þessi hólf verði opnuð og línuskip fái að veiða þar í framtíðinni,“ sagði hann.
Dúndurveiði í Héraðsflóadýpinu
Óli Björn Björgvinsson, skipstjóri á Sighvati GK, var einnig afar ánægður með veiðiferðina.
„Við vorum í Héraðsflóadýpinu og þar var algjör veisla. Þetta var sannkölluð dúndurveiði. Ég man ekki eftir því að ná að fylla skipið í þremur lögnum. Þar að auki var þetta mjög góður fiskur, að mestu þorskur, og meðalþyngdin var um fimm kíló. Í fyrstu lögninni fengum við hvorki meira né minna en 55 tonn og ég man ekki eftir slíku,“ sagði Óli Björn. Hann bætti við að næsti túr yrði líklega fyrir sunnan land.
„Við eigum að taka bland í næsta túr og vonandi verður þá gott veður og straumlétt,“ sagði hann.