Bílakjarninn frá sept. 25
Bílakjarninn frá sept. 25

Fréttir

Ráðherra boðar sameiningu stoðþjónustu og stjórnunar framhaldsskóla
Frá útskrift í Fjölbrautaskóla Suðurnesja sl. vor. Mynd/Oddgeir Karlsson.
Föstudagur 19. september 2025 kl. 06:21

Ráðherra boðar sameiningu stoðþjónustu og stjórnunar framhaldsskóla

Mennta- og barnamálaráðuneytið hefur boðað breytingu á skipulagi framhaldsskóla landsins sem felur í sér að stoðþjónusta og stjórnun ákveðinna skóla verður sameinuð á einum stað í svæðisskrifstofu. Ekki liggur fyrir hvaða skólar sameinast undir hverju svæði.

Framhaldsskólarnir í landinu eru alls 27, þar af er einn á Suðurnesjum, Fjölbrautaskóli Suðurnesja.

Bílakjarninn frá sept. 25
Bílakjarninn frá sept. 25

Samkvæmt tilkynningu ráðuneytisins verða svæðisskrifstofurnar 4-6 talsins. Ekki er búið að ákveða hvaða skólar deila skrifstofu né hvar þær verða staðsettar, að öðru leyti en þær verði „í nærumhverfi“

Þar er haft eftir Guðmundi Inga Kristinssyni, mennta- og barnamálaráðherra, að engir framhaldsskólar verði lagðir niður og þeir eigi áfram að halda sínum „sérkennum, nafni og faglegri stjórnun.“

Mannauðsmál, rekstur og sérstakur stuðningur á svæðisskrifstofu

Stefnt er að því að mannauðs- og rekstrarmál færist inn á skrifstofurnar. Þar verði einnig til staðar sérfræðingar, svo sem sálfræðingar, hjúkrunarfræðingar, þroskaþjálfarar og náms- og starfsráðgjafar sem styðja við minni skóla eftir þörfum.

Breytingarnar eru meðal annars studdar með því að börnum í viðkvæmri stöðu hafi fjölgað í framhaldsskólunum en ekki hafi tekist að byggja upp þjónustu við þau eins og þyrfti.

Í tilkynningunni segir ennfremur að mótun þessa nýja kerfis sé á frumstigi og framundan sé „ítarlegt samráð“ við skólameistara, kennara, starfsfólk, nemendur og nærsamfélag skóla um nánari útfærslu.

Boða færslu verkefna frá skrifstofu skóla til svæðisskrifstofu

Nánari upplýsingar um áformin er að finna á framhaldsskolar.is, léni sem nýskráð var á mennta- og barnamálaráðuneytið í gær. Í svari þar við spurningu um hvort einhverjar uppsagnir fylgi breytingunum segir að gengið sé út frá að halda í mannauð, að skólastjórnendur og kennarar starfi áfram innan skólanna. Hins vegar sé viðbúið að „einhver verkefni“ færist yfir á svæðisskrifstofurnar. Það eigi þó líka við um verkefni sem séu unnin innan ráðuneytisins í dag. „Markmiðið er ekki að skerða þjónustu í héraði heldur auka hana.“

Þar er því líka hafnað að breytingarnar séu í hagræðingarskyni, heldur til að „efla skilvirkni stjórnsýslu og bæta þjónustu.“