Reynisfólk heiðrað af KSÍ og ÍSÍ
Sveinn Pálsson sæmdur gullmerki KSÍ á 90 ára afmælisdegi Reynis Guðjón Ólafsson gaf fimm milljónir í uppbyggingu barna- og unglingastarfs
Knattspyrnusamband Íslands og Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands veittu Reynisfólki viðurkenningar í 90 ára afmælishátíð Knattspyrnufélagsins Reynis í Samkomuhúsinu í Sandgerði á dögunum. Um er að ræða einstaklinga sem eiga það sameiginlegt að hafa lagt líf og sál í íþróttastarf á vegum Ksf. Reynis.
Knattspyrnusamband Íslands veitti nokkrum einstaklingum silfurmerki og gullmerki KSÍ. Þau Andri Þór Ólafsson, Árni Sigurpálsson, Árni Þór Rafnsson, Ástrós Jónsdóttir, Ástvaldur Ragnar Bjarnason; Heiða Rafnsdóttir, Jón Bjarni Sigursveinsson, Ómar Svavarsson og Valdís Fransdóttir voru sæmd silfurmerki KSÍ. Þeir Hannes Jón Jónsson, Magnús Þórisson og Sigursveinn Bjarni Jónsson voru sæmdir gullmerki KSÍ.
Þá var Ólafur Þór Ólafsson sæmdur silfurmerki Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands.
Myndirnar tóku France Jón og Hilmar Bragi.

Nýir handhafar gullmerkis KSÍ (talið frá vinstri): Eysteinn Pétur Lárusson, framkvæmdastjóri KSÍ; Hannes Jón Jónsson; Sigursveinn Bjarni Jónsson; Magnús Þórisson; og Ingi Sigurðsson, varaformaður KSÍ.
Sveinn Pálsson fékk gullmerki KSÍ
Það var viðeigandi að á sama tíma væri Sveinn Pálsson sæmdur gullmerki Knattspyrnusambands Íslands. Sveinn er fæddur árið 1924, er heiðursfélagi í Reyni og eini núlifandi stofnfélagi félagsins. Þá er hann jafnframt höfundur hins glæsilega merkis Reynis, sem allt Reynisfólk er ákaflega stolt af.

Það var Þorvaldur Örlygsson, formaður KSÍ, sem kom í Garðabæ og sæmdi Svein gullmerkinu á heimili hans. Með Þorvaldi voru Eysteinn Pétur Lárusson, framkvæmdastjóri KSÍ, og Andri Þór Ólafsson, formaður knattspyrnudeildar Reynis.

Frá vinstri: Andri Þór Ólafsson, formaður Knattspyrnufélagsins Reynis, Sveinn Pálsson og Þorvaldur Örlygsson, formaður KSÍ.
Sveinn á því einstakt hlutverk í sögu Reynisfélagsins, en hann var aðeins 10 ára gamall þegar félagið var stofnað árið 1935. Síðan þá hefur hann fylgt félaginu eftir alla tíð. Hann hannaði merki félagsins á sínum yngri árum, merki sem hefur staðið tímans tönn og er eitt kunnasta í íslenskri knattspyrnu.
Með afhendingu gullmerkisins vill KSÍ heiðra einstakt ævistarf Sveins og mikilvæga sögu hans með Reyni. Það var því táknrænt að þessi viðurkenning skyldi fara fram á sjálfum afmælisdegi félagsins, sem hann tók þátt í að koma á laggirnar fyrir 90 árum.
Gaf fimm milljónir í uppbyggingu barnastarfs Reynis
Guðjón Ólafsson hefur fært Knattspyrnufélaginu Reyni fimm milljónir króna til uppbyggingar barna- og ungmennastarfs hjá félaginu. Tilkynnt var um gjöfina í 90 ára afmæli Reynis en félagið bauð Reynisfólki til kaffisamsætis í Reynisheimilinu 15. september, á stofndegi félagsins.

Guðjón Ólafsson, annar frá vinstri, með gömlum Reynisfélögum í kaffiboðinu á 90 ára afmælisdegi félagsins.
Fjölmargir Reynismenn mættu í hófið og gerðu sér glaðan dag og nutu veitinga frá Magga á Réttinum og Sigurjónsbakaríi. Fyrr sama dag var eini núlifandi stofnfélagi Reynis, Sveinn Pálsson, sæmdur gullmerki KSÍ.

Hafsteinn Pálsson, stjórnarmaður í Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands, og Ólafur Þór Ólafsson handhafi silfurmerkis ÍSÍ.