HS Veitur
HS Veitur

Fréttir

Unglingadeildin Klettur – 20 ár af starfi sem mótar framtíðina
Laugardagur 27. september 2025 kl. 06:05

Unglingadeildin Klettur – 20 ár af starfi sem mótar framtíðina

Í ár fagnar Unglingadeildin Klettur í Reykjanesbæ 20 ára afmæli sínu en það eru tveir áratugir af ómetanlegu starfi þar sem ungt fólk hefur fengið tækifæri til að læra, vaxa og leggja sitt af mörkum til samfélagsins hér í bæ.

Fyrir mér er þetta afmæli ekki aðeins tímamót, heldur líka áminning um hversu gríðarlega mikilvægt þetta starf er fyrir samfélagið okkar. Þar tala ég sem bæði  formaður Björgunarsveitarinnar Suðurnes,  sem fyrrum unglingur í unglingadeildinni og fyrrverandi umsjónarmaður.

Ég hef því horft á starf deildarinnar frá öllum hliðum – sem þátttakandi, leiðbeinandi og nú sem ábyrgðarmaður starfsins sem þar fer fram.

Bílakjarninn frá sept. 25
Bílakjarninn frá sept. 25
Upphafið – þrír menn, ein hugsjón

Upphaf Unglingadeildarinnar Kletts má rekja til nóvembermánuðar 2005 en stuttu áður hafði Helena Dögg Magnúsdóttir verið ráðin til starfa hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg með það hlutverk að fjölga unglingadeildum víðsvegar um landið og koma að byggja upp starf þeirra og endurvekja starf deilda sem hefðu legið niðri lengi.

Helena Dögg hóf starfið hér í heimahéraði og kallaði eftir sjálfboðaliðum í sinni eigin björgunarsveit til að byggja upp slíka deild í Reykjanesbæ en í nágrannasveitarfélögunum hafa starfað öflugar unglingadeildir í nokkuð mörg ár.

Þrír metnaðarfullir og hugrakkir björgunarsveitarmenn stigu fram og ákváðu eftir smá samtal að taka af skarið.

Þeir Arnar Steinn Elísson, Brynjar Ásmundsson og Sævar Magnús Einarsson  tóku að sér þetta krefjandi verkefni, lögðu grunninn að Unglingadeildinni Kletti og tryggðu þannig að ungt fólk á svæðinu hefði vettvang til að læra og kynnast björgunarstörfum, styrkja sjálfstraust sitt og eignast ómetanlega reynslu sem nýtist til framtíðar.

Það sem hófst með þremur eldhugum og einum draumi hefur í dag þróast í sterkan og lifandi hluta af samfélagi okkar allra hér í Reykjanesbæ.

Starf sem hefur raunverulegan tilgang

Unglingadeildin Klettur er ætluð unglingum í 9. og 10. bekk grunnskólana í bæjarfélaginu. Þar fá unglingarnir tækifæri til að taka þátt í ævintýralegu starfi sem hefur raunverulegan tilgang og skilar svo til baka í samfélagið.

Á fundum og ferðum unglingadeildarinnar fá þau að kynnast fjölbreyttum þáttum björgunarsveitastarfsins, svo sem fyrstu hjálp,rötun og ferðamennsku, leitartækni og að sjálfsögðu sjóbjörgun.

Við leggjum ríka áherslu á samvinnu, þrautseigju, traust, teymisvinnu og auðvita vináttu því þetta er ekki bara þekking – heldur lífsreynsla sem styrkir bæði einstaklingana og hópinn sem heild.

Hápunktar í starfinu

Þótt starfið sé dýrmætt alla daga eru ákveðin augnablik sem skera sig úr sem hápunktar í starfi deildarinnar.

Landsmót unglingadeilda, sem haldin eru annað hvert ár, eru ógleymanleg og ómissandi upplifun. Þá koma saman mörg hundruð unglingar og umsjónarmenn hvaðanæva af landinu í ótrúlegri stemningu, til að læra, keppa og skemmta sér saman.

Á milli landsmóta eru svo haldin landshlutamót, sem eru ekki síður spennandi og gefandi fyrir unglinginn.

Þessi mót eru mikilvæg fyrir bæði félagslega tengslamyndun og þjálfun í fjölbreyttum björgunartækniæfingum að ógleymdu þingi unglingadeilda þar sem þau sjálf fá tækifæri til að móta starfið sitt.

Mörgum þykir líka sérstaklega vænt um ferðir á Gufuskála á Snæfellsnesi en þar rak Slysavarnarfélagið Landsbjörg æfingaraðstöðu en þær ferðir eru í dag hluti af sögu deildarinnar.

Þeir sem hafa tekið þátt í ferðum á Gufuskála tala um þær með miklum hlýhug og segja að þær hafi styrkt hópinn og skapað ómetanlegar minningar.

Árangurinn – hundruð unglinga hafa blómstrað

Á þessum tveimur áratugum hafa hundruð unglinga tekið þátt í starfi Unglingadeildarinnar Kletts.

Margir þeirra hafa síðar tekið virkan þátt í starfi björgunarsveitarinnar og orðið lykilfólk í aðgerðum sem hafa skipt sköpum fyrir aðra í samfélaginu.

Aðrir hafa farið í aðrar áttir en tekið með sér færni, ábyrgðartilfinningu og vináttu sem nýtist þeim alla ævi.

Það sem mér hefur alltaf þótt merkilegast er að sjá hvernig einstaklingar blómstra í þessu starfi.

Feimin ungmenni, sem jafnvel koma inn með fáa vini, finna hér sitt samfélag, eignast trausta vini og öðlast sjálfstraust í starfinu.Það er ómetanlegt að fylgjast með þeirri þróun og sjá hversu mikil áhrif starfið hefur.

Þakklæti til þeirra sem hafa gert þetta mögulegt

Það að halda svona starfi gangandi í 20 ár krefst starfskrafta fjölda sjálfboðaliða sem vinnur óeigingjarnt starf í þágu unglinganna og samfélagsins alls.

Ég vil sérstaklega þakka þeim sem hafa staðið vaktina í gegnum árin öll og ber þar helst að nefna Arnar Stein, Brynjar og Sævar Magnús sem hófu starfið og komu því á. Helenu Dögg fyrir að vera lykilkona í unglingamálum félagsins síðustu 20 ár og sem yfirumsjónarmaður í Unglingadeildinni Kletti um árabil

Svo er það Berglind Ásta Kristjánsdóttir sem sjálf hóf starf sem unglingur í deildinni og starfar þar sem yfirumsjónarmaður með ómetanlegri elju og eldmóði.

Að lokum er það Þorgerður Anja Snæbjörnsdóttir sem einnig var fyrst unglingur í deildinni og síðan umsjónarmaður og yfirumsjónarmaður – alls í 18 ár samfelt en hún hefur lagt ótrúlega mikið af mörkum og því var henni á afmælishátíð deildarinnar síðasta sunnudag veitt gullheiðursmerki björgunarsveitarinnar fyrir ótrúlegt starf í þágu unglingamála fyrir björgunarsveitinna.

Án framlags þeirra – og svo fjölmargra annarra umsjónarmanna, foreldra og félaga í Björgunarsveitinni Suðurnes hefði þetta starf aldrei orðið að veruleika og blómstrað eins vel og stafið er í dag.

Framtíðin – fjárfesting í samfélaginu

Þegar við lítum til baka á þessa tvo áratugi er ljóst að Unglingadeildin Klettur er einn mikilvægasti grunnurinn sem björgunarsveitin hefur.Hún er fjárfesting í framtíðinni, bæði fyrir einstaklingana sjálfa og samfélagið allt.

Við ætlum að halda áfram að byggja upp þetta starf, styrkja unglinganna og skapa vettvang þar sem næstu kynslóðir björgunarfólks geta vaxið og dafnað.

Þegar við hlúum að ungmennum, erum við að hlúa að framtíð okkar allra.

Til hamingju Unglingadeildin Klettur með 20 ára afmælið – og hjartans þakkir enn og aftur til allra sem hafa tekið þátt í þessu ómetanlega starfi í gegnum árin.

Marteinn Eyjólfur Þórdísarsson, formaður Björgunarsveitarinnar Suðurnes í Reykjanesbæ.

Safnahelgi 2025
Safnahelgi 2025