Fyrirliði Evrópukylfinga er með tap gegn Erni Ævari á ferilskránni
Luke Donald, fyrirliði Ryderliðs Evrópu í golfi er með það á ferilskránni að hafa tapað fyrir Erni Ævari Hjartarsyni úr Golfklúbbi Suðurnesja í landsleik. Það var þegar Ísland og England léku um 3.-4. sætið á Evrópumóti landsliða í Svíþjóð árið 2001.
Luke Donald er í sviðsljósinu ásamt tólf leikmönnum Evrópu sem leika gegn Bandaríkjamönnum í New York í Ryder bikarnum í golfi. Þetta er stærsta golfmót heims og haldið annað hvert ár.
Í fyrrnefndum landsleik í Svíþjóð áttust þeir Örn Ævar og Donald við í holukeppnisleik og Örninn úr Keflavík lagði Donald með einni holu og fór leikurinn alla leið á 18. holu. Englendingar sigruðu í viðureigninni um 3. sætið og Ísland endaði í 4. sæti sem er lang besti árangur Íslands í Evrópumóti landsliða í golfi.
„Þetta er eitthvað sem ég á alltaf eftir að geta montað mig af. Þetta sannar allavega að ég gat eitthvað í golfi,“ sagði Örn Ævar í samtali við Kylfing.is og hló. „Hann var stjarna í háskólagolfinu á þessum tíma og ég vissi alveg hver þetta var. Þetta var góður leikur en ég hafði betur á 18. holunni. Donald er frábær kylfingur og það var gaman að keppa á móti honum.“
Í liði Englands voru kunnir kappar, m.a. Nick Dogherty sem nú er sjónvarpsmaður á Sky en var lengi atvinnumaður.
Fjallað var um þessi úrslit og mótið í Golf á Íslandi og Páll Ketilsson, ritstjóri blaðsins og nú VF og kylfings.is fylgdist með í Svíþjóð. Sjá má þá umfjöllun hér.
Í landsliði Íslands voru tveir Keflvíkingar, Örn og Helgi B. Þórisson. Hér eru þeir á mynd: F.v. Helgi B. Þórisson, Örn Ævar, Ottó Sigurðsson, Ragnar Ólafsson, aðstoðarliðsstjóri, (Staffan Johannsson var landsliðsþjálfari en Ísland vann m.a. Svíþjóð í 8 liða úrslitum), Ólafur Már Sigurðsson, Björgvin Sigurbergsson og Haraldur H. Heimisson.